Árið 2021: „Manni leggst alltaf eitthvað til“

Svavar Knútur skellir í Self-ljót við Selfljót á leiðinni á Borgarfjörð eystri. AÐSEND MYND
Svavar Knútur skellir í Self-ljót við Selfljót á leiðinni á Borgarfjörð eystri. AÐSEND MYND

Feykir plataði söngvaskáldið góða, Svavar Knút, til að henda í eitt ársuppgjör. Pilturinn er að handan, eða austan Vatna, en býr í Bogahlíð borgar óttans. Svavar Knútur hefur verið duglegur við alls kyns tónleikahald um allar trissur á Covid-tímum og þá ekki hvað síst skellt í netútsendingar í tíma og ótíma, enda happdrætti að plana meiriháttar tónleikaferðir síðustu misserin. Hann er vatnsberi í skónúmeri 45 og þegar hann er beðinn um að lýsa árinu í þremur orðum segir hann: „Tími með börnunum.“

Hver er maður ársins? Ég veit ekki, er það ekki bara íslenska þjóðin svona upp til hópa að sýna þokkalega samstöðu á erfiðum tímum? Ég er ekki mikið fyrir að einstaklingsgreina hvort sem er, vandamál eða velgengni. Trúi ekki á hetjur eða skúrka neitt sérstakega. Þetta er allt afurð samfélags og umhverfis og við gerum bara öll okkar besta.

Hver var uppgötvun ársins? Hvað það er ótrúlega gott að eiga meiri tíma með fjölskyldunni. Svo uppgötvaði ég hvað það er stórskemmtilegt að umgangast kollega mína í alþjóðlegu heimstónlistarsenunni. Þá átti ég ótrúlega skemmtilegan tíma vinnandi verkefnið Fámennt en góðmennt,þar sem ég heimsótti brothættar byggðir. Þar fór ég svo mikið að hugsa um hvað við notum orðið “Brothætt” bara um hluti sem eru dýrmætir. Skæni og kol í brunaleifum eru ekki brothætt þó þau brotni auðveldlega. Einungis dýrmæt fyrirbæri eru brothætt, eitthvað sem við viljum ekki missa.

Hvað var lag ársins? Fyrir mig var það lagið mitt November. Það var gaman að semja það og vinna það og koma því út. Annars var bara fullt af góðri tónlist sem kom út á árinu.

Hvað var broslegast á árinu? Tjah, hjá mér gerðist eitt sem mér fannst sjúklega fyndið. Ég var á tónleikaferð í Evrópu og sat af gömlum vana í lest á leiðinni milli borga í Sviss. Ég var einn í vagninum á fyrsta farrými þegar inn kemur ein óskaplega fín frú. Þetta er auðvitað í miðju Covid, en hún sest engu að síður í næsta sæti fyrir aftan mig í þessu flennistóra rými. Mér finnst það ansi furðulegt, en svo bætir hún í með því að byrja að leysa vind með miklum óhljóðum og alveg skelfilegri lykt. Ég átti gríðarlega bágt með mig að drepast ekki úr hlátri að þessu stórfurðulega atviki. Að hún skyldi koma alveg upp að mér á þessum tíma og svo henda í svona rosalegan viðrekstur. Þetta var næstum því menningarsjokk.

Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Ég á eftir að sakna tímans með fjölskyldunni minni. Að starfa sem tónlistarmaður felur oft í sér rosalega löng tónleikaferðalög, sérstaklega eftir að plötusala hrundi. Þá þarf maður að túra ennþá meira. Og það bíður núna á næsta ári.

Varp ársins? Æðavarpið á Ströndum. Svo byggðalínan hjá Byggðastofnun. Hún er bara stórskemmtileg. :D

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Neikvæðni, tuði og ofurviðkvæmni fólks fyrir réttmætri gagnrýni. Það væri æðislegt ef það væri eldfimt.

Hver var helsta lexía ársins? Manni leggst alltaf eitthvað til.

- - - -

Svavar Knútur var ásamt Aldísi Fjólu með jólatónleika í nafni Grýlubarna í Gránu í desember. Hér er smá upphitun sem þau settu í loftið fyrir tónleikana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir