Árleg helgistund í Grafarkirkju
Árleg helgistund í Grafarkirkju verður haldin að kvöldi sunnudagsins 20. júlí kl. 20. Gröf á Höfðaströnd er álitin vera fæðingarstaður sálmaskáldsins ástsæla sr. Hallgríms Péturssonar, en nú eru 400 hundruð ár liðin frá fæðingu hans.
Kirkjan, sem stendur í mynni Deildardals í Skagafirði, er mikill dýrgripur, segir sr. Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur Hofsóss- og Hólaprestakalls, enda eitt fágætasta hús landsins og eina stafkirkjan sem varðveist hefur á Íslandi. „Þangað sækir fjöldi fólks á hverju sumri og þykir jafnan mikil upplifun enda engu líkara en gengið sé inn í annan tíma þegar komið er inn fyrir torfveggi þessarar litlu og fallegu kirkju. Segja má að fólk skilji við sig hávaða nútímans og verði hluti af liðinni tíð og sögu sem nær aftur um aldir.“
Sr. Gunnar segir að ekki sé með öllu vitað hversu gömul Grafarkirkja er en víst þykir að saga hennar nái að minnsta kosti aftur á 17. öld og alls ekki ósennilegt að kirkjan sé að stofni til frá því fyrir siðbót. Hvað sem því líður hafi kirkja staðið í Gröf frá fornu fari.
Lengst af var Grafarkirkja vettvangur helgrar þjónustu og þegar mest var umleikis í Gröf, í tíð Ragnheiðar Jónsdóttur (d. 1715) ekkju Gísla Þorlákssonar Hólabiskups (d. 1684), var messað þar reglulega. Með breyttum tíma og aðstæðum lagðist helgihald þó af og húsið nýtt til veraldlegri hluta, eins og algengt var um aflögð guðshús, var notað sem skemma og geymsla um tíma. Með tíma lét Grafarkirkja á sjá og ljóst að á kirkjunni væri gagngerra endurbóta og viðgerðar þörf. Ráðist var í þær um miðja síðustu öld en þá var kirkjan komin í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Þeirri vinnu var lokið árið 1953 og af því tilefni var Grafarkirkja endurvígð 12. júlí sama ár af biskupi Íslands. Enn var ráðist í yfirgripsmiklar viðgerðir á kirkjunni árið 2011 sem staðið höfðu til um þó nokkurn tíma. Að þeirri framkvæmd lokinni, og af því tilefni, var Grafarkirkja blessuð af Jóni Aðalsteini Baldvinssyni Hólabiskup í helgistund í júlí 2012.
Grafarkirkja er ekki aðeins minnisvarði um liðna tíð að mati sr. Gunnars. „Hún stendur umfram allt sem árétting á samhengi sögu og menningar lands og þjóðar sem sótt hefur þrótt og næringu til kristinnar trúar frá upphafi. Helgistund í Grafarkirkju að sumarlagi hefur um langt skeið verið árviss viðburður í Hofsóss- og Hólaprestakalli. Þá er komið saman til kyrrlátrar stundar í kvöldsólinni og notið einstæðrar kyrrðar og helgi. Að helgistundinni lokinni er drukkið kaffi undir kirkjuveggnum og gætt sér á meðlæti sem kórfélagar Hofsóss og aðrir velunnarar kirkjunnar hafa meðferðis. Helgistundin er vel sótt og kemur fólk víða að og á ánægjulega stund á fallegum stað.“
Að þessu sinni verður helgistundin haldin að kvöldi sunnudagsins 20. júlí kl. 20. Sóknarprestur Hofsóss- og Hólaprestakalls þjónar fyrir altari og flytur íhugun og kirkjukór Hofsóss syngur fallega kvöldsálma. Að venju bíður kirkjufólks kaffisopi og meðlæti að helgistundinni lokinni og eru allir hjartanlega velkomnir.
/Fréttatilkynning