Ásdís Aþena gefur út Break Apart

„Það eru fjögur lög á plötunni. Eitt coverlag og þrjú frumsamin lög (eitt á íslensku og tvö á ensku). Það er hægt að segja að þetta séu fullkomin haustlög þar sem þau eru öll frekar dramatísk og drungaleg,“ segir Ásdís Aþena um EP-plötu sína, sem hún kallar Break Apart, og bætir við: „Fullkomin fyrir skammdegisþunglyndið sem mun hrjá okkur öll eftir nokkrar vikur eða mánuði.

Ásdís Aþena Magnúsdóttir er fædd og uppalin á Hvammstanga og er 19 ára gömul. Hún hefur áður sent frá sér jólalagið Björt jól en hægt verður að hlýða á Break Apart á tónlistarveitum frá og með 29. september. Aðspurð segir hún mjög misjafnt hvernig lögin verði til hjá sér „Yfirleitt þá dettur mér bara einhver texti í hug og skrifa hann niður og svo kemur restin af laginu bara seinna þegar ég gef mér tíma til að setjast við píanóið og skoða textabrotin sem mér hafa dottið í hug upp á síðkastið. Eiginlega öll lög sem ég sem eru mjög dramtísk og yfirleitt eru þau líka í rólegri kantinum.“ Þegar Feykir spyr um fyrirmyndir í tónlistinni segist hún ekki vera viss en ef hún þyrfti að nefna einhverja þá væru það örugglega Hozier og Adele.

Af hverju Running Up That Hill? „Ég söng það lag fyrst á Mellómúsíka á Eldi í Húnaþingi síðasta sumar. Ég fann útgáfu af því sem mér fannst henta mér mjög vel og svo fannst mér bara mjög gaman að syngja það. Þarna kynntist ég líka Munda (Guðmundi Helgasyni) sem ég hef unnið plötuna í samstarfi við. Okkar fannst því alveg tilvalið að hafa þetta lag á plötunni þar sem við vildum hafa eitt coverlag með hinum.

Hvað ertu að gera annað en að búa til músík? „Ég byrjaði að læra stjórnmálafræði í HÍ í haust og finnst það mjög áhugvert. Ég æfi líka fótbolta og keppti með Tindastól í sumar og haust.“

Platan er unnin í samstarfi við Guðmund Helgason, hvað geturðu sagt okkur um hann? „Við kynntumst mjög óvænt síðasta sumar. Hann hafði samand við mig eftir að hafa séð mig syngja Running Up That Hill og vildi fá að vita hvort ég væri eitthvað í því að semja lög. Ég sagði bara já og svo leist honum mjög vel á lögin og við ákváðum að byrja á þessu verkefni saman,“ segir Ásdís Aþena en þess má geta að Guðmundur er frá Hvammstanga.

Þú prófaðir að taka þátt í Idol síðasta haust. Hvernig upplifun var það og hvernig gekk? „Skooo, ég er mjög ánægð með að hafa tekið þátt en ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá gekk það alls ekki vel. Ég var frekar illa undirbúin, hafði verið í útlöndum og mætti til Íslands kl. 2 um nóttina daginn áður en ég fór í prufurnar. Ákvað svo að skipta um lag um morguninn áður en ég fór og hafði aldrei sungið lagið fyrir framan annað fólk áður. Ofan á allt þetta þá var ég bara að drepast úr stressi og kom þessu ekki nógu vel frá mér. Þetta var samt in the end bara lærdómsrík upplifun þannig að ég sé alls ekki eftir því að hafa gert þetta,“ segir þessi efnilega tónlistarkona í lokin.

Eins og sagt var frá í Feyki í vikunni þá mun Slagaarsveitin húnvetnska halda tónleika í Iðnó á Hvammstanga nú um helgina. Ásdís Aþena mun einmitt hita upp fyrir kappana síungu á báðum tónleikum og mun þá eflaust flytja lögin af Break Apart.

Ásdís Aþena svaraði Tón-lystinni í Feyki fyrir tæpu ári siðan. Hér má kíkja á spjallið >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir