Atvinnulífssýning á Króknum 20.-21. maí

Frá skemmtidagskrá á atvinnulífssýningunni Lífsins gæði og gleði árið 2014. MYND: ÓAB
Frá skemmtidagskrá á atvinnulífssýningunni Lífsins gæði og gleði árið 2014. MYND: ÓAB

Að halda og heimsækja atvinnulífssýningu í Skagafirði er bæði gefandi og gaman. Tekin hefur verið ákvörðun þess efnis að halda atvinnulífssýningu í íþróttahúsinu á Sauðárkróki dagana 20.–21. maí næstkomandi og hefur nú verið opnað fyrir skráningar. Síðustu skipti sem atvinnulífssýning hefur verið sett upp á Króknum hefur það verið á kosningaári en ekki reyndist unnt að halda sýningu í fyrra.

Fyrst og fremst setti covid strik í reikninginn og sveitarstjórnarkosningarnar voru haldnar helgina eftir að Sæluviku lauk og því kannski óþægilega stutt á milli. Svo reyndar hefði úrslitakeppnin í körfubolta – sem dróst jú á langinn hjá Stólunum – að öllum líkindum sett vinnu og uppsetningu sýningarinnar í uppnám.

Skráning er hafin

Í tilkynningu á heimasíðu Skagafjarðar segir að atvinnulífsýningunni ætlað að varpa ljósi á þann fjölbreytileika sem er í þjónustu, framleiðslu, mannlífi og menningu í Skagafirði, vekja jákvæða athygli á samfélaginu okkar, kynna sprota og nýsköpun í atvinnulífi og síðast en ekki síst skapa skemmtilegan viðburð fyrir Skagfirðinga og gesti.

Atvinnulífssýningin verður haldin með sama sniði og fyrri sýningar árin 2010, 2012, 2014 og 2018. Sýnendum gefst kostur á að kynna starfsemi sína í básum í íþróttahúsinu en jafnframt er heimilt að selja þar vörur. Þá er stefnt að því að halda málstofur um fjölbreytt málefni sömu daga.

Skráning og allar nánari upplýsingar um atvinnulífssýninguna er að finna hér á heimasíðunni og með því að smella hér. Skráningarfrestur er til og með 27. apríl 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir