Auðvelt að verða „húkkt“ :: Nýliðar í golfi - Sigríður Garðarsdóttir

Nýliðar voru áberandi í starfi GSS í sumar en metþátttaka var á árlegu nýliðanámskeiði í júní. Formaður klúbbsins brá sér í hlutverk blaðamanns og tók nokkra þeirra tali og mun Feykir birta viðtöl í næstu blöðum. Sigríður Garðarsdóttir er andlit Nýprents og pistlahöfundur hér í Feyki. Hún segir í viðtali við blaðamann ekki hafa verið duglega að spila fyrr en seinni part sumars og þá var ekki aftur snúið.

„Ég er búin að spila fullt og skellti mér í öll mót sem ég gat tekið þátt í,“ segir Sigríður sem jafnan er kölluð Sigga. Hún segist hafa fengið góða leiðsögn á byrjendanámskeiðinu sem sé mikilvægt enda mælir hún með golfi sem hún segir góða blöndu af göngutúr og heilaleikfimi. „Þá getur maður annað hvort verið einn með sjálfum sér eða spilað í góðra vina hópi,“ segir hún.

Aðspurð um skemmtileg atvik segir Sigga: „Ég lendi í skondnum atvikum á hverjum einasta hring sem ég spila, hvort sem það er að slá bolta upp í tré eða að ná að para braut. Hvort sem það gengur vel eða illa þá hef ég ótrúlega gaman af golfi, svo er það bara bónus ef ég næ að lækka í forgjöf.“  Sigga er ánægð með fríðindin sem fylgja því að vera í GSS og ætlar hún að spila enn meira golf á næsta ári en hún gerði í sumar.
/Kristján Bjarni Halldórsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir