Aukasýning á Allt er nú til

Aukasýning á Allt er nú til, fimmtudag 18. maí kl. 20:00. Mynd: James Kennedy.
Aukasýning á Allt er nú til, fimmtudag 18. maí kl. 20:00. Mynd: James Kennedy.

Annað kvöld, fimmtudag 18. maí kl. 20:00, verður aukasýning  á söngleiknum Allt er nú til sem leiklistardeild Höfðaskóla á Skagaströnd frumsýndi í byrjun mánaðarins. Þegar hefur verið sýnt þrisvar sinnum fyrir þéttsetnu húsi og við mjög góðar viðtökur ánægðra leikhúsgesta. Sýnt er í Félagsheimilinu Fellsborg.

Eins og áður hefur komið fram á Feyki.is er hér um frumsýningu á Íslandi að læra og eru nemendur því ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Söngleikurinn gerist um borð í skemmtiferðaskipi á fjórða áratug síðustu aldar og fjallar um ástir og örlög farþeganna. Kabarettstjarnan Nína Sveins gerir hosur sínar grænar fyrir hinum unga Bjössa Kristjáns, en hann hugsar ekki um aðra en Höllu Hjaltalín. Hann laumast um borð í farþegaskipið S.S. American til að reyna að koma í veg fyrir að Halla giftist lávarðinum Blængi Blandon, en þar sem Bjössi er með falsað vegabréf og þar að auki að skrópa í vinnunni mega hvorki yfirmaður hans né kafteinninn komast að því að hann sé á skipinu. Þar hittir hann fyrir ýmsa kynlega kvisti: aðalsfólk, mafíósa, sjóliða og fjárhættuspilara svo eitthvað sé nefnt. Á Facebooksíðu hópsins segir að sýningin sé sannkölluð skemmtun fyrir alla fjölskylduna, stútfull af söng og dansi.

Að sögn Ástrósar Elísdóttur, leikstjóra og þýðanda verksins, hafa krakkarnir staðið sig mjög vel en alls taka 27 nemendur á unglingastigi þátt í sýningunni, 24 leikarar og þrír tæknimenn. Ekki eru fleiri sýningar áætlaðar þannig að nú er um að gera að drífa sig í leikhús og sjá þessa líflegu sýningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir