Bændamarkaður á Hofsósi á morgun

Sigrún Indriðadóttir stendur vaktina á bændamarkaði í sumar. Mynd: FE
Sigrún Indriðadóttir stendur vaktina á bændamarkaði í sumar. Mynd: FE

Á morgun laugardag verður haldinn jólamarkaður í gamla Pakkhúsinu á Hofsósi sem standa mun á milli kl 13-16. Lofað er góðri jólastemningu og glæsilegum varningi í alla staði. Í jólablaði Feykis var viðtal við Sigrúnu Indriðadóttur þar sem hún sagði frá markaðnum sem kominn er til að vera.

Í sumar var haldinn svokallaður bændamarkaður á Hofsósi þar sem bændum var gefinn kostur á að kynna og selja sínar framleiðsluvörur. Tókst það vel til að leikurinn var endurtekinn þrisvar. Nú er ætlunin að opna enn á ný þann 8. desember kl. 13-16 í Pakkhúsinu á Hofsósi. Feykir hafði samband við Sigrúnu Indriðadóttur, sem heldur úti Rúnalist á Stórhóli í Lýtingsstaðahreppi hinum forna og forvitnaðist aðeins um markaðinn.

„Í rauninni stöndum við framleiðendur fyrir Jóla-Bændamarkaðnum, sem vorum í honum í sumar, en við Hildur Magnúsdóttir, framleiðandi Pura Natura , tókum að okkur að halda utan um þetta núna.“

Sigrún segir að fyrsti markaðurinn, sem haldinn var 30. júní á bæjarhátíðin var á Hofsósi, hafi tekist mjög vel, margir gestir sem allir voru mjög áhugasamir og salan góð. Síðan voru haldnir tveir markaðir til viðbótar á Hofsósi, vel sóttir og góð verslun. En svo var markaðurinn fluttur til og settur upp á Sveitasælu, sem haldin var í Reiðhöllinni Svaðastöðum við Sauðárkrók.

„Við framleiðendur viljum endilega halda Bændamarkaðinum áfram.  Þjóðminjasafnið hefur gefið vilyrði fyrir húsinu áfram, við erum í rauninni að halda menningarverðmætum á lofti, en upprunalega var pakkhúsið geymsla fyrir matvæli meðal annars. Það að fá að gæða þetta tæplega 250 ára gamla hús lífi á ný er bara dásamlegt og sérstaklega viðeigandi. Matís sem fór af stað með verkefnið er einnig mjög ánægt með árangurinn, Þjóðminjasafnið fyrir lífið í húsinu og framleiðendurnir fyrir tækifærið. Bændamarkaðurinn á Hofsósi er klárlega kominn til að vera og mun bara dafna, verða stærri og flottari,“ segir Sigrún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir