Bein aðför að dreifðum byggðum

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld beina aðför að hinum dreifðu byggðum í landinu og lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirra. Byggðarráðið telur tillögur gegn fámennum barnaskólum sérstaklega furðulegar og harðneskjulegar.

Á fundi byggðarráðsins í gær var bókuð eftirfarandi ályktun:

Í tillögum ”samráðsvettvangsins“ felst bein aðför að búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins. Tillögurnar vega að löggæslu, heilsugæslu og menntamálum á öllum skólastigum. Tillögurnar eru óskiljanlegar í ljósi þess að í kjölfar efnahagskreppunnar þá var niðurskurðarhnífi hins opinbera einkum beitt utan höfuðborgarinnar.

Hjá "samráðsvettvangnum" kemur fram að mikil áhersla hafi verið lögð á breið sjónarmið innan hans, en augljóst er að sjónarmið landsbyggðarinnar hafa algerlega verið sniðgengin. Sérstaklega eru tillögur gegn fámennum barnaskólum harðneskjulegar og furðulegt að telja að hópur manna í æðstu stigum þjóðfélagsins sammælist um að skerðing á grunnmenntun í dreifbýli geti verið ein forsenda hagvaxtar á Íslandi.

Aðkoma forystumanna stjórnmálaflokka sem og Sambands íslenskra sveitarfélaga að þessari tillögugerð veldur vissulega áhyggjum.

Fundargerðir byggðarráðs og sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar má lesa á þessari slóð.

Fleiri fréttir