Bjarni og Soffía til liðs við knattspyrnudeild Tindastóls

Bjarni Stefán Konráðsson og Soffía Helga Valsdóttir. MYND FACEBOOK
Bjarni Stefán Konráðsson og Soffía Helga Valsdóttir. MYND FACEBOOK
Í tilkynningu frá barna og unglingaráði knattspyrnudeildar Tindastól segir að nú hafi borist liðsauki við það frábæra fólk sem fyrir starfar við deildina en það eru þau Bjarni Stefán og Soffía Helga sem eru mætt aftur í fjörðinn og kominn til starfa. 
 

Bjarni Stefán Konráðsson er snúinn aftur á heimaslóðir og mun gegna hlutverki yfirþjálfara þar sem hann ætlar að miðla þeirri miklu reynslu sem hann hefur öðlast í í gegnum tíðina í sínum störfum. Bjarni hefur áratugareynslu af þjálfun, stefnumótun og ráðgjöf fyrir knattspyrnufélög vítt og breitt um landið auk þess sem hann hefur starfað fyrir KSÍ svo eitthvað sé nefnt.

 Þá hefur Soffía Helga Valsdóttir, sem einnig er snúin aftur í Skagafjörðinn, verið ráðin í hlutastarf á skrifstofu barna-og unglingaráðs, þar sem hún mun hafa umsjón með samskiptum, upplýsingagjöf og Abler svo eitthvað sé nefnt. Soffía hefur víðtæka starfsreynslu og verður kærkomin viðbót í starfsmannahóp barna-og unglingaráðs.

Eins og áður hafði verið kynnt þá  hefur Rabbý látið af störfum sem yfirþjálfari til að einbeita sér frekar að þjálfun einstakra flokka, auk þess sem hún mun hafa umsjón með styrktarþjálfun og sinna sérverkefnum.
 
Knattspyrnudeildin vill minna á að samskipti og upplýsingar vegna æfinga eða málefna sem snúa að einstaka flokkum skal beina til þjálfara flokksins í gegnum Abler. Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á fotbolti.unglingarad@tindastoll.is  og að lokum viljum þau minna á að dagana 1.-12. sept. er frítt fyrir alla krakka að prófa að mæta á æfingar í fótboltanum. Allir krakkar eru boðin velkomin og tekið er sérstaklega vel á móti nýjum iðkendum!

Fleiri fréttir