Björgunarsveitafólk frá Blöndu og Húnum á hálendisvaktinni

Hópurinn sem var á vakt fyrri hluta vikunnar. Myndir: Húni.is
Hópurinn sem var á vakt fyrri hluta vikunnar. Myndir: Húni.is

Undanfarin ár hefur Slysavarnarfélagið Landsbjörg rekið svokallaða Hálendisvakt á sumrin og felst verkefnið í því að halda úti gæslu og aðstoð á hálendinu. Auk Landsbjargar standa Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður að vaktinni. Í sumar var vakt allan sólarhringinn í Landmannalaugum, Nýjadal á Sprengisandi, Drekagili norðan Vatnajökuls og einnig var viðbragðsvakt í Skaftafelli.

Hópurinn sem var á vakt seinni hluta vikunnar.

Á Húna.is er sagt frá því að í síðustu viku hafi aðilar frá Björgunarfélaginu Blöndu á Blönduósi og Björgunarsveitinni Húnum á Hvammstanga staðið hálendisvaktina ásamt félögum úr Kili, Dagbjörtu og einum Norðmanni sem starfar sem lögreglumaður í heimalandinu auk þess að vera meðlimur í Rauða krossinum í Osló.

Nokkuð var um útköll, segir á Húna.is, þó þau hafi reyndar verið í lágmarki, en að sjálfsögðu er æskilegast að þau séu sem allra fæst þrátt fyrir það að útköllin auki reynslu félaganna af björgunarstörfum við misjafnar aðstæður.

Meðan hópurinn var að störfum fylgdi honum kvikmyndatökufólk sem myndaði flest það sem gert var á vaktinni en verið er að gera heimildamynd um hálendisvaktina. Myndin, sem verður í sex þáttum, verður sýnd í vetur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir