Björn J. Sighvatz tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í gær tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2020. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.  Björn J. Sighvatz, kennari á málmsmíða- og vélstjórnarbraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fékk tilnefningu fyrir framúrskarandi kennslu, meðal annars við að hvetja nemendur til dáða og stuðla að góðum námsárangri þeirra.

„Það er mér sannur heiður að fá að tilkynna um þessar tilnefningar í dag, á alþjóðadegi kennara. Við þurfum öll að muna eftir mikilvægi kennara og íslensks menntakerfis. Menntakerfið hefur unnið þrekvirki á síðustu misserum, en miðað við hugmyndarflug og fjölbreytni skólastarfs þá kemur það mér ekki á óvart. Við erum ótrúlega öflugt fólk í menntakerfinu og það skiptir sköpum að geta verðlaunað og hrósað fyrir gott og gjöfult starf,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, í tilefni dagsins.

Á vef Skólaþróunar segir að Björn J. Sighvatz hafi kennt við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra frá 1994, lauk kennaraprófi 1996, en er einnig vélstjóri að mennt. Björn hefur verið leiðandi í þróun náms í málmiðnum og vélstjórn við  skólann og hefur sinnt starfi sínu af alúð og ávallt borið hag nemenda sinna fyrir brjósti. Björn hefur verið virkur í skátahreyfingunni, segir einnig á vefnum.

Foreldri lýsir árangri hans með þessum orðum:
Björn hefur í áraraðir staðið sig einkar vel í starfi sínu sem kennari á málmsmíðabraut FNV. Hann hefur sérstakt lag á að hlúa að brothættum nemendum, halda þeim við efnið og hvetja þá til dáða. Margir ungir menn sem eru sannarlega í brottfallsáhættu eiga honum að miklu leyti að þakka árangur sinn í Fjölbrautarskólanum á Sauðárkróki.

Tilnefningar í þremur aðalflokkum eru:

Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
o          Dalskóli fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf.

o          Leikskólinn Rauðhóll fyrir framúrskarandi og fjölbreytt þróunarstarf og nýsköpun, faglegan metnað, starfsþróun og lýðræðislega starfshætti.

o          Menntaskólinn á Tröllaskaga fyrir nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði.

o          Pólski skólinn fyrir mikilvægan stuðning við tvítyngda nemendur og þróun fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi, sem og fyrir fjölbreyttar kennsluaðferðir og öfluga starfsþróun.

o          Tónskóli Sigursveins fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og framlag til barnamenningar með árvissu samstarfi við rúmlega 30 reykvíska leikskóla.

Framúrskarandi kennari
o          Anna Sofia Wahlström, kennari við leikskólann Holt í Reykjanesbæ, fyrir framúrskarandi kennslu og þróunarstarf í tengslum við innlend og alþjóðleg verkefni sem beinast að því að efla skapandi leikskólastarf með áherslu á læsi og lýðræði.

o          Birte Harksen, kennari við Heilsuleikskólann Urðarhól í Kópavogi, fyrir framúrskarandi kennslu og frumkvæði við að efla skapandi og leikmiðaða starfshætti í leikskólum með vefsvæðunum Börn og tónlist, Leik að bókum og Stafagaldur.

o          Björn J. Sighvatz, kennari á málmsmíða- og vélstjórnarbraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fyrir framúrskarandi kennslu, meðal annars við að hvetja nemendur til dáða og stuðla að góðum námsárangri þeirra.

o          Ólöf Ása Benediktsdóttir, kennari við Hrafnagilsskóla, fyrir framúrskarandi árangur við kennslu á unglingastigi, fjölbreyttar kennsluaðferðir og óbilandi trú á hæfni allra nemenda.

o          Þórunn Elídóttir, kennari við Hamraskóla í Reykjavík, fyrir framúrskarandi árangur í byrjendakennslu, vandaða lestrarkennslu barna í yngstu bekkjum grunnskóla og þróun og miðlun námsefnis í læsi.

Framúrskarandi þróunarverkefni
o          Frístundalæsi

Þróunarverkefni sem snýr að eflingu máls og læsis barna í gegnum leik á frístundaheimilum og í tómstundastarfi, meðal annars með útgáfu handbóka fyrir starfsfólk og foreldra ásamt gerð vefseturs með hugmyndum og leiðbeiningum.

o          Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN): Samtal náttúrufræði og listgreina

Þróunarverkefni þar sem nemendur fjalla um málefni náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt með aðferðum list- og verkgreina. Verkefnið byggist á þverfaglegri nálgun þar sem nemendur takast á við álitamál samtímans með gagnrýnu hugarfari.

o          Smiðjan í skapandi skólastarfi

Þróunarverkefni á unglingastigi í Langholtsskóla í Reykjavík sem beinist að því að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

o          Vistheimt með skólum

Langtímafræðsluverkefni í grunn- og framhaldsskólum um vistheimt (endurheimt náttúrulegra gæða) og mikilvægi hennar fyrir gróður og jarðveg, líffræðilega fjölbreytni og baráttuna við loftslagshamfarir.

o          Snillitímar í Gerðaskóla

Þróunarverkefni sem beinist að því að efla frumkvæði nemenda í eigin námi með því að gefa þeim kost á að fást við skapandi verkefni á eigin áhugasviði.

Ráðgert er að verðlaunin verði afhent í nóvember nk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir