Blönduósbær hyggst færa viðskipti sín yfir til Landsbankans

Á fundi byggðarráðs Blönduósbæjar miðvikudaginn 26. maí síðastliðinn, greindi sveitastjóri Blönduósbæjar, Valdimar O. Hermannsson frá því hann hefði átt viðræður við Landsbankann um bankaviðskipti sveitarfélagsins. Samhliða því lagði hann til að Blönduósbær færði viðskipti sín yfir til Landsbankans.

Hingað til hefur Blönduósbær verið í viðskiptum við Arion banka, en þann 5. maí síðastliðinn lokaði Arion banki útibúi sínu á Blönduósi þrátt fyrir að Félag eldri borgara í Húnaþingi og sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu hafi mótmælt harðlega þeirri ákvörðun. 

Á umræddum fundi byggðarráðs greindi Valdimar sveitastjóri einnig frá því að til skoðunar væri að opna afgreiðslu Landsbankans á Blönduósi. 

/SMH

 

Fleiri fréttir