Breytingar á aðalskipulagi Húnavatnshrepps

Auglýst hefur verið breyting á aðalskipulagi Húnavtanshrepps 2010-2022. Er breytingin gerð vegna fjölgunar efnistökustaða, nýs verslunar- og þjónustusvæðis að Sveinsstöðum og nýs athafnasvæðis á Húnavöllum.

Í greinargerð með tillögunni segir:

„Megin tilgangur þessara breytinga er að móta frekar stefnu um efnistökusvæði í Húnavatnshreppi og setja inn ákvæði í aðalskipulag sem geta orðið grundvöllur veitingar framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku.
Þessar breytingar eru meðal annars gerðar í samráði við Vegagerðina og Landsvirkjun. Flest þessara efnistökusvæða tengjast framkvæmdum við lagfæringu á vegakerfi í sveitarfélaginu t.d. á Þjófadalsvegi / Hveravallavegi (nr. 735) og á Kjalvegi (nr. 35), en einnig eru námur tengdar framkvæmdum vegna þriggja virkjana sem á að reisa á milli Blöndulóns og Gilsárlóns.
Gerð er breyting í landi Sveinsstaða þar sem gert verður ráð fyrir nýrri frístundabyggð og svæði fyrir verslun og þjónustu. Deiliskipulag fyrir svæðið verður auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingunni. Einnig er gerð breyting innan þéttbýlisins að Húnavöllum þar sem bætt er við nýju athafnasvæði, A2.
Markmið breytingarinnar er að tryggja að sem minnst rask verði af efnistökusvæðum og nágrenni þeirra og að frágangur að vinnslutíma loknum verði snyrtilegur og falli sem best að umhverfi og að atvinnulíf þróist eðlilega í sveitarfélaginu."

Breytingartillagan, aðalskipulagsuppdráttur ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu, liggur frammi til kynningar frá 10. júlí til 21. ágúst nk. á skrifstofu Húnavatnshrepps á Húnavöllum og hjá Skipulagsstofnun að Borgartúni 7b í Reykjavík. Ennfremur er breytingartillagan aðgengileg á heimasíðu Húnavatnshrepps: http://www.hunavatnshreppur.is.
Er hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Skulu þær vera skriflegar og berast eigi síðar en 22. ágúst nk. til Húnavatnshrepps, Húnavöllum, 541 Blönduós. 

Fleiri fréttir