Bruninn í Málmey

Lokabindi Byggðasögu Skagafjarðar, það tíunda í röð þessa viðamikla og metnaðarfulla verkefnis sem Hjalti Pálsson hefur stýrt allt frá upphafi, er komið út. Þar er umfjöllunarefnið m.a. kauptúnin þrjú í austanverðum Skagafirði, Grafarós, Hofsós og Haganesvík auk kafla um Drangey og Málmey og smájarðirnar sem fylgdu Hofsóshreppi.
Feykir fékk leyfi höfundar til að birta kafla um brunann í Málmey sem varð rétt fyrir jólin 1951 en búskapur var í eynni, líklega allt frá landnámi enda gnægtabúr matar í og við eyna, fugl, fiskur og selur, auk þess að eyjan ber töluverðan bústofn. Málmey fór í eyði 1952, ári eftir brunann, og hefur ekki verið búið þar síðan.
Í lýsingu um eyna segir m.a.:
Málmey er á austanverðum Skagafirði, um 3 km norðvestur af Þórðarhöfða. Um 5,5 km eru til lands yfir Málmeyjarsund á Lónkotsmöl. Til Drangeyjar í suðvestri eru um 10 km. Eyjan er um 4 km á lengd og mest 650 m á breidd en mjókkar til beggja enda. Málmey er öll gróin en best ræktunarland er um hana miðja að austanverðu. Suðurenda eyjunnar hallar til vesturs og er þar grynnri jarðvegur. Svipað er að segja um norðurendann. Hann hallar til austurs og er þar gróskuminna. Trúlega veldur vatnsleysi að hluta þessum mun á gróðurfari.“
Margar og ítarlegar frásagnir eru til um brunann í Málmey, bæði úr blöðum og einkaviðtölum og segir í Byggðasögunni að lítilsháttar misræmis gæti í þeim eins og verða vill þegar margir segja frá sama atburði. Verður hér gripið niður í nokkrar:
Þann 24. júní 1931 kom Arthur Cook trúboði til
Málmeyjar og fór til baka daginn eftir. Hann tók
nokkrar ljósmyndir í eynni m.a. þessa af heimilisfólkinu.
Séð úr landi
Axel Þorsteinsson (1927-2013), lengi bóndi í Litlu-Brekku, átti heima á Vatni á Höfðaströnd þegar bruninn varð. Þaðan sést vel til eyjarinnar yfir Höfðavatnið, Höfðamölina og Málmeyjarsundið. Axel varð þetta atvik ógleymanlegt og lýsti því þannig: Daginn fyrir Þorláksmessu árið 1951 var „sunnan hörkuhvassviðri en úrkomulaust, skammdegismyrkrið þykkt eins og veggur, næstum áþreifanlegt. Gömlu olíulamparnir rufu ekki stórt skarð í þennan vegg, jólaundirbúningurinn í fullum gangi. Um kvöldið, líklega milli 6 og 7, var sýnilegur eldur í eynni. Fyrst ekki meiri en svo að menn hugleiddu hvort brennt væri rusli. En brátt tók af allan vafa, það var eins og sprenging yrði, eldsúlan steig hátt til lofts og lýsti upp eyna sem dagur væri. Sinuhvítur Kaldbakurinn tók á sig fölrauðan lit af eldinum. Heima á Vatni varpaði hver mishæð, hvert hús og hver staur, dimmum skugga sínum á snjóflekkótta jörðina og hver norður- og vesturgluggi speglaði mynd sína á veggnum andspænis og svo mun einnig hafa verið um Fellshrepp allan.“
Frásögn Guðbjargar og Þórdísar
Í Málmey var allt sameiginlegt með fjölskyldunum, þ.e. eldhús og matargerð og búskapurinn allur. Nýlega var búið að byrgja upp fyrir veturinn, kjallarinn fullur af kolum og olíutunnur úti við húsvegginn. Nýlega var búið að setja upp ljósamótor. Seinni part sumarsins hafði verið lagt fyrir rafmagni í húsið og mótorinn tengdur og það var í mótorhúsinu sem eldurinn kviknaði. Hann hefur verið búinn að krauma alllengi niðri í kjallaranum því þegar Guðbjörg opnaði kjallarahlerann gaus þar upp svartur reykur og hún hrópa upp yfir sig. „Guð minn almáttugur, það er kviknað í.“ Mótorinn var í norðausturhorni kjallarans, yfir búrinu. Þegar kviknaði í húsinu voru öll börnin tíu í herberginu inn af eldhúsinu að hlusta á barnatímann. Þórdís, elsta stelpan, var með Loga í fanginu nokkurra mánaða gamlan. „Þá vitum við ekki fyrr til en Lindi kemur æðandi inn og þrífur í öxlina á einum krakkanum sínum og pabbi segir: „Hvurslags er þetta við barnið.“ Þá hrópar Lindi: „Það er kviknað í húsinu.“ Talstöðin var heit svo að strax var hægt að kalla í henni vegna þess að rafhlöður útvarpsins voru tómar og við vorum að hlusta gegnum talstöðina. Hún var þarna í sama herbergi og pabbi fer strax og kallar: ,,Siglufjarðarradíó, Siglufjarðarradíó, neyðarkall frá Málmey.“ Þetta heyrði ég (Þórdís) frá honum um leið og ég fór frá húsinu.“
Málmeyjarhúsið 25. júní 1931.
Hér er húsið 6 ára gamalt og í sínu besta standi.
Frásögn Erlendar
Á annan í jólum átti Morgunblaðið tal við Erlend. Hann sagði að þau hefðu öll verið á neðri hæðinni þegar eldsins varð vart. Hann kvaðst sjálfur hafa verið að mála ásamt Jakobi vinnumanni en Þormóður var í herbergi inn af eldhúsinu, þar sem talstöðin var.
Eldurinn kom upp í kjallara hússins þar sem rafvélin var og reykinn lagði upp í eldhúsið með hlera í gólfinu þar sem konurnar voru. Erlendur ætlaði niður í kjallarann en varð að snúa við og kallaði upp að grípa börnin. Komst hann svo fram í ytri gang hússins með þrjú börn. Konurnar og Þormóður voru þar fyrir og um leið og þau hlupu út úr brennandi húsinu, gripu þau fáeinar yfirhafnir. Þormóður hljóp inn aftur og upp á loft og náði í þrjár sængur og kastaði út um glugga, ætlaði síðan niður stigann aftur en komst ekki, varð að fara niður af svölunum með því að renna sér niður aðra súluna. Allt gerðist þetta á fáeinum augnablikum.
Strax var farið með börnin suður í fjárhúshlöðuna sem er um 300 m leið frá bænum. Þegar hópurinn komst að fjárhúshlöðunni og leit til baka heim að íbúðarhúsinu stóðu eldtungurnar út um glugga og dyr á hæðinni og innan stundar var húsið allt í ljósum logum. Taldi fólkið að það hafi brunnið á einni klukkustund.
Í snatri var búið um börnin í geil rúmlega mannhæðar djúpri og um þrír m á hvern veg. Yfir geilina var settur tjaldræfill. Það kom sér vel þegar byrjaði að snjóa um nóttina og snjófjúk smaug undir þakskeggið. Fjósið var áfast norðan við bæinn og það brann. Jakob vinnumaður var sendur til þess að bjarga kúnum. Honum gekk það erfiðlega. Fór Þormóður honum þá til hjálpar. Kýrnar vildu snúa inn aftur er þær höfðu rekið höfuðið út um fjósdyrnar, en vindurinn stóð upp á þær. Svo þegar þeir ætluðu að bjarga hænsnunum sem voru í sér kofa þá voru þau köfnuð vegna þess að reykurinn stóð á kofann. Kýrnar, ásamt tarfi, voru reknar niður í fjárhús. Þar voru 150 ær. Voru allmargar látnar út til að koma kúnum inn.
Fólkinu varð ekki svefnsamt um nóttina. Karlmennirnir fóru úr því sem þeir máttu missa til að skýla konum og börnum. Konurnar höfðu verið við eldhússtörfin, t.d. var Guðbjörg kona Þormóðs sokkalaus og í inniskóm. Börnin sofnuðu, en ekki vært, og þau eldri skulfu í svefninum. Handa minnstu börnunum mjólkuðu þau beint í pelann úr kúnum.
Um nóttina voru ræddar horfur á björgun fyrst ekki varð komist út til þeirra strax um kvöldið, en þá var sjólítið við Málmey. Þar eð áttin var suðlæg töldu þau sennilegt að dregist gæti í nokkra daga að komist yrði út í eyna. Þau gátu sér þess til að flugvél yrði send með klæðnað sem varpað yrði niður. Um kl. tvö um nóttina gekk vindur til norðaustanáttar og tók þá að snjóa og gerði brátt brim. Við það minnkaði björgunarvonin mjög. Alla nóttina fóru Þormóður og Erlendur til skiptis að lendingunni. Milli þess voru þeir eiginlega á stöðugum hlaupum í fjárhúshlöðunni til að halda á sér hita.
Þeir höfðu ákveðið að strax á laugardagsmorgun, áður en björgunin barst, skyldi sótt kjöt sem grafið var í snjóskafl og matbúa yfir kolaglóðunum í húsarústunum. Með því mætti fá heitt soð handa börnunum. Fólkið óttaðist að fáklædd börnin kynnu fá lungnabólgu í fjárhúshlöðunni.
Bæjartóftin nokkrum árum eftir brunann.
Fjárhúsin og hlaðan eru enn vel stæðileg.
Björgun úr eynni
Siglufjarðarradíó nam neyðarkallið frá Málmey og strax var haft samband við Magnús Guðjónsson skipstjóra á Skildi SI 82. Á þeim báti voru bræðurnir Gísli Sigurðsson og Jóhann Sævaldur Sigurðsson sem báðir höfðu verið um árabil í Málmey og voru þar gjörkunnugir. Nokkrir björgunarsveitarmenn fóru einnig og Sveinn Ásmundsson sem leiðangursstjóri. Hann fór og sótti sér mannbrodda. Menn spurðu hvað hann ætlaði að gera með mannbrodda en Sveinn svaraði fáu. Þessir mannbroddar áttu eftir að skipta sköpum fyrir björgunarsveitina að komast upp á eyna.
Veður var slæmt og þungur sjór og sóttist seint að komast út úr Siglufirði og inn eftir Skagafirði. Á sjöunda tímanum morguninn 23. desember voru Siglfirðingarnir komnir inn á Málmeyjarsundið og vörpuðu akkerum austan undir eynni en tveir björgunarbátar héngu í davíðum aftan við stýrishús Skjaldar og á þeim fóru björgunarmenn upp í fjöru neðan við Bæjargjána. Þá komu mannbroddarnir sér heldur betur í hálkunni og snjónum sem þar hafði safnast. Tókst mönnum að höggva sér spor upp með ísexi skipsins og festa niður kaðal sem hinir gátu styrkt sig eftir.
Þegar björgunarmenn komu upp á eyna sáu þeir að íbúðarhúsið hafði brunnið til kaldra kola og fallið. Íbúana var hvergi að sjá. Sóttu þeir þá Jóhann Sævald niður í fjöru en skildu eftir einn björgunarsveitarmann að gæta bátsins. Héldu þeir þá rakleiðis að fjárhúshlöðunni og gengu inn fyrir. Þá var fólk þar ásamt börnum grafið í hey í veðurofsanum. Voru allir fatalitlir og flestir hálf skjálfandi. Eftir það var farið að skipuleggja flutning fólksins niður að lendingunni. Sá þá Jóhann að innarlega í hlöðunni var lítil telpa. Gekk hann til hennar og bauðst til að lána henni peysuna sína og fá að halda á henni að lendingunni, þar sem árabáturinn biði þeirra til að flytja þau að stóra mótorbátnum, sem bjargaði þeim svo frá eynni og færi með þau í land. Litla telpan þáði boðið.
Börnin voru borin niður einstigið af björgunarsveitarmönnunum, vafin inn í teppi og síðan róið með þau gegnum öldubrimið og út í Skjöld er lá fyrir akkerum. Gekk flutningurinn vel á fólkinu. Þegar íbúarnir voru komnir um borð í mótorbátinn þurfti að ná í björgunarsveitamennina sem biðu í lendingunni við flæðarmálið í Málmey. Þá varð það óhapp að bátnum hvolfdi í fjöruborðinu en með snarræði tókst að forðast frekari slys og var siglt með fólkið til Hofsóss þar sem Erlendur fór samstundis suður með fjölskyldu sína flugleiðis frá Sauðárkróki en fjölskylda Þormóðs settist að á Hofsósi og í grennd. Sjálfur varð Þormóður eftir í eynni ásamt Jakobi vinnumanni til að sinna um skepnurnar og báturinn fór samdægurs aftur til eyjarinnar með vistir og búnað frá Hofsósi. Leiðangursmenn komu heim til sín á Siglufjörð árla á aðfangadag. 73)
Úlfar Þormóðsson rithöfundur vitjar fornra heimkynna
í kjallara Málmeyjarhússins. Hann var sjö ára gamall
og bjó í húsinu ásamt foreldrum sínum og systkinum
þegar eldurinn eyddi heimilinu 22. desember 1951.
Lán í óláni
Ljóst er að mikið lán fylgdi óláni brunans. Það var sérstök heppni að allt fólkið var saman komið á neðri hæðinni þegar eldurinn kom upp og tókst að komast út. Hefði eldurinn kviknað um nóttina eða eftir að fólkið var komið í svefnherbergin á efri hæðinni, hefði ekki þurft að spyrja að endalokunum. Klæðlítið og matarlaust komst fólkið út í fjárhúsin. Það var afrek að bjarga því úr eynni morguninn eftir. Um kvöldið hafði veður og sjólag versnað svo að ólendandi var við eyjuna og stóð svo í nokkur dægur.
Áður birst í 45. tbl. Feykis 2021