Brynja Barðadóttir lætur af störfum
feykir.is
Austur-Húnavatnssýsla
09.05.2017
kl. 08.48

Brynja Barðadóttir tekur við gjöf frá sveitarfélaginu úr höndum Valgarðs Hilmarssonar forseta sveitastjórnar. Mynd: Blönduós.is.
Brynja Barðadóttir lét af störfum á leikskólanum Barnabæ á Blönduósi um síðustu mánaðamót en þá hafði Brynja starfað í 41 ár hjá Blönduósbæ. Hún útskrifaðist sem fóstra árið 1974 frá Fósturskóla Íslands og hóf störf á leikskólanum árið 1976. Þá var leikskólinn starfræktur í húsnæði grunnskólans.
Á vef Blönduósbæjar segir að í lok sumars árið 1977 fluttist leikskólinn að Árbraut 35 og í núverandi húsnæði skólans árið 1981 og hefur Brynja tekið þátt í þessu öllu. Valgarður Hilmarsson, forseti sveitastjórnar færði Brynju gjöf frá sveitarfélaginu á þessum merku tímamótum auk þess sem samstarfsfólk og börn kvöddu hana með gjöfum.