Gerir ekkert nema fá borgað fyrir það

Hekla og hundarnir Ludo og Astro. Mynd aðsend.
Hekla og hundarnir Ludo og Astro. Mynd aðsend.

Í Gilstúninu á Króknum býr Hekla Eir ásamt eiginmanni sínum, Óla Birni, og syni þeirra Birni Helga. Þau eru ein af mörgum hundaeigendum á Króknum og eiga tvo hreinræktaða Tíbetan Spaniel hunda sem heita Ludo (The magical gamer Ludo) og Astro (Glowing Astro, sable boy).

Tíbetan Spaniel hundar eða Tíbbar, eins og þeir eru oft kallaðir, eru hvorki veiðihundar né smalahundar í sínu eðli eða uppruna. Þeir eru hins vegar með óvenju góða sjón og athygli og voru því notaðir til að láta vita hvort vinur eða ókunnugur væri að nálgast klaustur eða musteri húsbónda síns og gerði það með ólíku gelti. Þá lágu þeir gjarnan uppi í fjallshlíðunum eða á múrunum umhverfis klaustrin og þar höfðu þeir góða yfirsýn yfir heimasvæðið sitt. Þeir eru sérlega trúfastir og húsbóndahollir og gleyma aldrei sínum velgjörðarmönnum, en eru að sama skapi minnugir sé þeim misboðið. Þessi litli og harðgerði hundur óskar þess samt mest að vera í mikilli nálægð við mannfólkið sitt en gefur stærri hundum ekkert eftir hvað úthald varðar. Hann hefur mikla ánægju af því að fara í langar gönguferðir, en sættir sig við þá hreyfingu sem er í boði og margir tala um að hér sé á ferð stór hundur í litlum skrokk. Tíbbinn er ljúfur hundur sem þráir að fá að þóknast eiganda sínum en býr gjarnar til sínar eigin reglur og setur spurningarmerki við boð og bönn sem eigandanum á til að detta í hug að setja, eins og t.d. að fá að vera uppi í sófa, honum finnst það sjálfsagt. Það er gjarnan sagt að tíbbar séu ,,klókir sem refir, sjálfstæðir sem kettir og uppátækjasamir sem apar."

Hvernig eignaðist þú Ludo og Astro? Ludo fengum við árið 2019 í gegnum Demetríu ræktun Íslands sem hún Guðrún Helga Harðardóttir er með. Svo kom Astro ári seinna frá sama ræktanda en þá var ég komin sex mánuði á leið með Birni Helga.

Hvað er skemmtilegast við þá? Hvað þeir eru ólíkir. Astro er algjört kúrudýr en Ludo ráðskast með mann hægri vinstri.

En erfiðast? Erfiðasta við þá er líklegast veikindin, Ludo hefur verið frekar óheppin með það að gera.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af þeim? Ludo gerir ekki neitt nema að fá borgað fyrir, þannig hann hefur tekið upp á því að í hvert skipti sem hann leikur sér aðeins þá finnst honum hann eiga skilið nammi. Hann er búinn að þjálfa okkur í það að þegar við byrjum að leika við hann sækir hann dótið kannski 2x en hleypur svo að nammi skápnum og rekur á eftir okkur að verðlauna sér. Annars er Astro algjör mús og þegar það kemur að nýju fólki og hundum þá er hann mesti tappinn, það tekur kannski tíu mínútur fyrir hann að mýkjast við fólk en nokkra daga með hundum. Má ekki sýna sína mjúku hlið med det samme.

Feykir þakkar Heklu Eir kærlega fyrir að svara Ég og gæludýrið mitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir