Dropinn holar steininn

Varmahlíðarskóli. MYND SKAGAFJÖRÐUR
Varmahlíðarskóli. MYND SKAGAFJÖRÐUR

Dropinn holar steininn eru upphafsorð bókunar skólaráðs Varmahlíðarskóla undir málaflokknum þróun mála á viðhaldi skólans. Miklar umræður hafa verið þegar kemur að viðhaldi og viðbyggingu við Varmahlíðarskóla undanfarin ár. Nú er það orðið ljóst að viðhald Varmahlíðarskóla er ekki á dagskrá í fjárhagsáætlun Skagafjarðar. Viðhaldi hefur stöðugt verið slegið á frest, að sögn vegna væntanlegra framkvæmda sem enn hafa þó ekki verið tímasettar en hafa lengi verið taldar í augsýn og eðli málsins samkvæmt eru vangaveltur um hvað þarf að bíða lengi eftir að þær framkæmdir hefjist. 

Bókunina má lesa í heild sinni hér að neðan:

Dropinn holar steininn. Þetta máltæki er auðskiljanlegt enda flestum kunnugt hvernig vatn vinnur á hinum hörðustu efnum. Það má glöggt sjá á Varmahlíðarskóla. Þar hafa droparnir fengið að vinna sín kyrrlátu verk utanhúss en svo komist inn í hlýjuna og haldið áfram uns för þeirra hefur verið stöðvuð, en ekki hefur alltaf verið farið geyst í að tálma leiðir vatnsins.
Vatnið er ekki eini óvinur skólans. Tíminn telst einnig í þeim hópi, að minnsta kosti þegar hann vinnur af jafn mikilli hörku og hann hefur gert að undanförnu og má heyra hinn þunga nið hans. Skólahúsið var reist af stórhug og var glæsilegt, síðan eru liðin næstum 50 ár og af einhverjum völdum er það ekki jafn glæsilegt og fyrrum. Helsta ástæðan er líkast til sú að eðlilegu viðhaldi er slegið á frest, að sögn vegna væntanlegra framkvæmda sem enn hafa þó ekki verið tímasettar en hafa lengi verið taldar í augsýn. Afurð biðarinnar er hús sem hefur mjög látið á sjá. Vatn hefur fengið að vinna verk sín eins og fyrr hefur verið frá greint. Vindurinn hefur einnig fundið glufur og því gustar oft um nemendur og má nærri geta hversu frískandi það er á vetrardögum dimmum.
Eitt og annað má tilfæra sem mætti bæta eða laga en það verður látið hjá líða í bili þar sem viðhald Varmahlíðarskóla er ekki á dagskrá í fjárhagsáætlun Skagafjarðar. Þetta er þó sett fram hér til þess að minna á tilvist Varmahlíðarskóla. Einnig er þetta athugun á því hvort dropinn holi steininn einnig í óeiginlegri merkingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir