Drottning stóðrétta um næstu helgi
Viðamikil dagskrá fer að venju fram í tengslum við Laufskálarétt, drottningu stóðrétta landsins, en réttað er laugardaginn 27. september nk. Á vef Svf. Skagafjarðar kemur fram að gleðin hefjist föstudaginn 26. september með stórsýningu og skagfirskri gleði í reiðhöllinni Svaðastöðum kl. 20:30.
Í reiðhöllinni verður boðið upp á hressandi sýningu með flinkum knöpum og góðum hestum, m.a. Króki frá Dalbæ sem er með 10 fyrir skeið. Samkvæmt vefnum verður grín og söngur. Þá mun skeiðhesturinn mikli Fróði frá Laugabóli og Árni Björn Pálsson mæta og Skíma frá Kvistum sýna sig. Þrautakeppnin og skeiðkeppnin eru svo á sínum stað.
Í skeiði eru vegleg verðlaun í boði. Sigurvegarinn fær 50 þús., annað sætið gefur 30 þús. og þriðja sætið 20 þús. Gefendur verðlauna eru Ólafshús, Hótel Tindastóll og Miðgarður. Höllin opnuð kl. 20:00, miðaverð kr. 2000.- „Það verður kátt í höllinni þetta kvöld!“ segir á vefnum.
Réttardagskrá í Laufskálarétt í Hjaltadal hefst með því að stóðið verður rekið úr Kolbeinsdal til Laufskálaréttar uppúr kl. 11:30. Réttarstörf hefjast kl. 13:00. Þátttakendum við stóðrekstur úr Kolbeinsdal er bent á að mæta við Laufskálarétt eða við hesthúsið Ástungu kl. 10:00, á laugardagsmorgunn.
Bækling með dagskránni er hægt að nálgast hér.
Stærsta réttarball norðan heiða
Laufskálaréttarball 2014 verður haldið í Reiðhöllinni Svaðastöðum og hefst það kl. 23. Hljómsveitin Von ætlar að stíga á svið ásamt landsliði söngvara: Matti Matt, Ingó veðurguð og Ernu Hrönn. Einnig kemur fram unga og efnilega hljómsveit kvöldsins með Sigvalda Gunnars í broddi fylkingar.
Miðaverð er kr. 3500. og er forsala aðgöngumiða hjá N1 á Sauðárkróki. Tekið er fram að engin bjórsala verður á staðnum. Aldurstakmark er 16 ár.