Bríet leigufélag kaupir sex íbúðir af Flúðabakka ehf | Sigurður Örn Ágústsson skrifar
Briet leigufélag og Flúðabakki ehf. skrifuðu í dag undir kaupsamning um kaup Bríetar á 6 íbúðum við Flúðabakka 5 af Flúðabakka ehf. Iða Marsibil Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Bríetar segir kaupin vera hluta af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar og falli að markmiðum Bríetar að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu þar sem þörf er á því á landsbyggðinni.
Þetta eru kannski ekki beint fréttir, þar sem Bríet leigufélag hefur þegar tilkynnt hið sama. Þar sem við félagarnir í Flúðabakka ehf. höfum nú selt þessar íbúðir til Bríetar er ekki úr vegi að líta aðeins yfir farin veg.
Framtakssemi í heimabyggð
Það fór ekki framhjá mörgum Íslendingum þegar Reynir Grétarsson fjárfesti fyrir miklar fjárhæðir í sínum gamla heimabæ fyrir nokkrum misserum. Þeim fjárfestingum og atorkusemi Reynis fylgdi jákvæðari umfjöllun um Húnabyggð en áður hafði þekkst, til lengri tíma. Við Hermann Arason vorum sammála um að okkur langaði að leggja eitthvað af mörkum sem gæti orðið til gagns í sveitarfélaginu.
Á endanum varð úr að okkur langaði að koma með nýjan valkost á fasteignamarkaðinn. (Réði þar auðvitað nokkru að Hermann hefur mikla þekkingu og reynslu af nýbyggingum og að ég hafði (eins og svo margir) séð það mikla ósamræmi sem væri milli fasteignaverðs út á landi miðað við höfuðborgarsvæðið og þá spennu sem það setti fasteignamarkaðinn í út á landi).
Við vildum ýta undir það að losa stærri sérbýli, sem henta barnafjölskyldum, og þar með ýta undir fólksfjölgun á svæðinu. Laða að fólk til Húnabyggðar til að taka þátt í vexti og framþróun.
Við fengum til liðs við okkur, í hluthafahópinn, Einar Örn Arnarson, byggingatæknifræðing og Negluna byggingafélag, Kristján Blöndal og Birki Rúnar. Við lögðum upp með að byggja eins hagkvæmt og hægt væri, en án þess að það væri á kostnað gæða.
Við héldum fundi með væntu kaupenda-/leigjendamengi og fengum, beint af kúnni, upplýsingar um hvernig húsnæði vantaði, hvernig húsnæði myndi helst henta. Fengum svo Stáss arkitekta til að teikna húsið.
Upphaflega skoðuðum við gaumgæfilega að flytja inn einingahús og reisa hratt, og spara þar með t.a.m. fjármagnskostnað. En úr varð að við vildum skilja allan virðisauka eftir í heimahéraði, við skiptum nánast eingöngu við heimamenn þar sem því var viðkomið. Við gerðum samning við Negluna um byggingu íbúðanna og réðumst í framkvæmdir.
Við sáum fyrir okkur að það að bjóða nýjan valkost í Húnabyggð myndi hafa ruðningsáhrif á köldum fasteignamarkaði á okkar heimasvæði. Fólk, komið yfir miðjan aldur, sem ætti eldri einbýlishús (150-200m2) gæti þá selt sín hús og flutt sig í minna og viðhaldslétt. Það myndi svo opna fyrir það að fjölskyldufólk gæti flutt á svæðið.
Það var samt strax ljóst að það yrði erfiður biti að kyngja að fá í raun litla sem enga milligjöf við kaupin, að fara úr stærra og eldra húsnæði í minna en nýtt. Því var okkar aðhaldskrafa á kostnað mjög rík.
Vandamálið hér, og var augljóst strax, er að söluverð fasteigna á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu er ekki það sama. En byggingakostnaður sá sami, eða meiri (og það þrátt fyrir að sveitarfélög út á landi afhendi byggjendum lóðir án greiðslu). Í þessu samhengi má segja að viðmið byggingakostnaðar í dag er nálægt 700.000 pr fermeter
Eins og fyrr segir var okkar fyrsta val að selja íbúðirnar beint, en ella leigja þær út. Í haust tókum við samtal við Bríet leigufélag, sem sérhæfir sig í að leigja út fasteignir og úr því samtali varð að Bríet hefur nú keypt af okkur allar eignirnar og býður þær í kjölfarið til leigu.
Við lögðum upp með að byggja fallegar, vel hannaðar, vandaðar íbúðir undir 100m2 sem við myndum bjóða eldri borgurum til kaups (og til leigu til vara) – og okkur finnst vel hafa tekist til. Íbúðirnar voru hannaðar útfrá algildri hönnun og við erum mjög ánægðir með hvernig til tókst og erum fullvissir þess að þarna á íbúum eftir að líða vel.
Það er okkar von að þetta verði framfaraskref fyrir Húnabyggð.
Áfram Húnabyggð.
Á næstu dögum mun Bríet auglýsa fasteignirnar til leigu, hægt er að hafa samband við þau beint í netfangið briet@briet.is.
