„Ég vil bara heyra eitthvað brjálað stuð“ / GEIRMUNDUR VALTÝS

Geirmundur.  MYND: PÉTUR INGI
Geirmundur. MYND: PÉTUR INGI

Það þarf ekki að kynna Geirmund Valtýsson fyrir neinum. Það kannast allir við sveiflukónginn skagfirska og sennilega langflestir lesendur Feykis sem hafa verið á balli með Hljómsveit Geirmundar, tjúttað, trallað og jafnvel tekið fyrsta vangadansinn undir tónum Geira og félaga. 

Það er að sjálfsögðu löngu kominn tími til að Geiri svari Tón-lystinni í Feyki og ekki þótti síðra að fá hann til að svara Jóla-Tón-lystinni. Geirmundur er fæddur á lýðveldisárinu 1944 og ólst upp á Geirmundarstöðum hjá foreldrum sínum, Valtý Sigurðssyni og Önnu Hjartardóttur. Hann segir fyrsta hljóðfæri sitt hafa verið harmonikku sem hann og Gunnlaugur bróðir hans fengu lánaða hjá nágranna þeirra, Steinbirni heitnum á Hafsteinsstöðum, þegar Geiri var ellefu ára gamall. „Þar byrjuðum við Gulli að æfa og spila,“ segir Geirmundur. 

Geirmundur hefur verið í ballbransanum í 60 ár en hann byrjaði að skemmta 14 ára gamall og margir halda því fram að hann hafi vart misst úr ballhelgi sl. 50 ár. Hann hefur gefið út fjölda hljómplatna, á ótal lög sem hafa komið sér snoturlega fyrir í hugum Íslendinga og það er fjallgrimm vissa fyrir því að það er stuð á balli með Geirmundi. Hann segir að það sem upp úr standi eftir langan feril vera fjölmarga tónleika sem hann hefur haldið í Miðgarði, Hótel Íslandi, Austurbæ, Sjallanum og víðar, 60 ára afmælið í íþróttahúsinu og þegar hann tók við fálkaorðunni á Bessastöðum. Og það er augljóst hverjir voru helstu áhrifavaldar Geira í tónlistinni. „Bítlarnir náttúrulega átu mann upp, Paul McCartney, eins og hann gerir ennþá reyndar,“ segir hann léttur.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ætli það sé ekki bara frá ´60 og upp í ´70. Gæti trúað því enda voru Bítlarnir, Presley og fleiri góðir upp á sitt besta.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Maður er bara ánægður að heyra eitthvert lag í útvarpinu sem manni líkar. Það eru mörg lög sem maður hefur ekki áhuga á að hlusta á og færir sig yfir á aðra stöð til að finna eitthvað skárra. Ég er nú aðallega að tala um rappið.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili ? Á þessum tíma er ég var að alast upp þá voru náttúrulega bara kórar og pabbi söng líka mikið bara einn. Maður hafði gaman af því að hlusta á það.

Hver var fyrsta platan sem þú keyptir þér? Ég man nú bara eftir því þegar ég keypti fyrstu Hljóma-plötuna. Það var æðislega gaman. Ég keypti hana hér út á Krók og ætli ég hafi ekki keypt hana hjá Itta. Ég hlustaði á hana alveg fram á miðja nótt því mér fannst hún alveg æðisleg.

Hvaða græjur varstu þá með? Það voru Pioneer græjur. Þegar ég var búinn að gefa út mína fyrstu plötu 1972, Bíddu við og Nú er ég léttur, fékk ég frá útgefandanum flottustu Pioneer græjur vegna þess hve platan seldist vel. Þær eru til ennþá niðri í kjallara hjá mér.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Þau voru mörg hjá Hljómum en svo voru það Bítlalögin, I Saw Her Standing There og ef við förum í rólegu deildina, Yesterday.

Hvaða tónlist hlustar þú helst á í jólaundirbúningnum? Jólatónlistin í útvarpinu mallar undir.

Hvert var uppáhalds jólalag unglingsáranna? Það var t.d. Gefðu mér gott í skóinn, útsett af Þóri Baldurs fyrir Rúnna Júl, María Baldurs söng það. Mér þótti útsetningin flott.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það er ekkert lag sem hefur eyðilagt daginn fyrir mér. Það er svo mikil tónlist í hausnum á mér að ég þoli ýmislegt. Það væri þá eitthvert rapplag sem engin melódía er í.

Þú heldur dúndurball í kvöld, hvað lög tekurðu til að koma öllum í stuð? Ég er búinn að spila Nú er ég léttur og Bíddu við á hverju einasta balli síðan þau komu út ´72. Fólk biður um þetta ennþá og syngur með. Undir bláhimni hefur verið vinsælt og nú Ég er kominn heim. Það er frábært lag sem Óðinn Valdimarsson söng inn á plötu með KK sextettinum ´58. Heyrðist ekki mikið fyrr en að fótboltastrákarnir okkar fóru að gera það gott. Það er með ólíkindum hvað fólk syngur með í þessu lagi en það kunna þetta allir.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi fara á tónleika með Paul McCartney og það er ekki útilokað að ég fari einhvern tímann. Mig langar rosalega til að fara á tónleika með honum og láta taka mynd af okkur saman. Hann er að vísu þremur árum eldri en ég en hann klikkar ekki. Við erum kannski ekki ósvipaðir því hann tekur ekki pásu á tónleikum. Hann sendir strákana í pásu og sest við píanóið eða spilar á gítarinn. Þetta er snillingur.

Hvernig eru jólalögin best? Ég gaf út jólaplötu 2013, sem ég ætlaði aldrei að gera. En hún heppnaðist vel að mínu mati og seldist ágætlega. En þau heyrast bara ekki í útvarpinu, bara þau gömlu. Maður var að reyna að koma einhverju nýju inn en það bara tókst ekki.

Þú vaknar í rólegheitum á jóladagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég vil bara heyra eitthvað brjálað stuð. Það er búið að vera nóg af rólegheitunum fram að því.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Ég held að ég verði að segja pass við þessu. Ég er ekki viss um að það hafi verið komnar neinar græjur í bíla þegar ég tók bílpróf. 

Ef þú þyrftir að skjóta á á hversu mörgum böllum þú hefur spilað í gegnum tíðina hver heldurðu að niðurstöðutalan yrði? Ja, það er bara eitt ball að jafnaði á helgi frá 1958. Fólk verður bara að reikna það út. [Það gera 3120 böll en Feykir er fullviss um að talan sé nær 5000.]

Hefurðu misst úr helgi í spilamennsku frá því Hljómsveit Geirmundar var stofnuð? Það hefur þá bara verið vegna veikinda eða einhverra óviðráðanlegra ástæðna.

Er eitthvað eitt ball sem þú gleymir aldrei? Já það er mörg böll sem sitja í manni. Við vorum að spila austur á Egilsstöðum, keyrðum norður á Akureyri og tókum flugvél þaðan en þegar við vorum komnir miðja leið í fluginu var okkur sagt að það væri svo mikil þoka, dimmt og leiðindaveður að það væri búið að loka vellinum á Egilsstöðum. Þá sagði flugmaðurinn við þann sem var í flugturninum: „Ég er hérna með hljómsveit sem á að spila á balli þarna hjá ykkur í kvöld,“ segir flugmaðurinn. „Heyrðu, er það Geirmundur? Við opnum völlinn,“ segir hinn. Ég man að við vorum mjög kvíðnir fyrir þessu balli því að Pálmi Gunnarsson, sem var óhemju vinsæll þá, var búinn að setja upp ball á móti okkur á Reyðarfirði sem er örstutt frá. En vegna þess að flugvöllurinn lokaðist þá komst hann ekki með áætlunarvélinni og við fengum ballið og allt fólkið, 7-800 manns. Það var æðislegt. 

Ef þú gætir valið þér að syngja jóladúett með hvaða söngvara sem er, lífs eða liðnum, hver væri það og hvaða lag yrði tekið? Ég er nú búinn að syngja jólalög með Helgu Möller og fleirum, til dæmis Ég sá mömmu kyssa jólasvein. Við erum búin að syngja það oft í kringum jólin.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ja, ég er búin að vera innan um mikla tónlistarmenn hér á Íslandi og vinna með mörgum. Það eru náttúrulega Maggi Kjartans og Gunni Þórðar. Maggi Eiríks er mikið stórskáld og það sem hann hefur fram yfir hina er að hann gerir ljóðin sín sjálfur. Og það er alveg ofboðslega mikill munur. Ég finn hvað það er pirrandi þegar ég er tilbúinn með lag að geta ekki búið til textann sjálfur. Ég get það reyndar en ég er bara svo lengi að því. Ég hef enga þolinmæði til þess.

Hvaða plata skiptir þig mestu máli? Ég fer inn á sjálfan mig ´89 þegar ég gaf út plötuna Í syngjandi sveiflu. Hún skipti mig öllu máli og kom mér inn á kortið. Þetta er safnplata með júróvísionlögunum sem ég hafði sent í keppnina ásamt fáeinum rólegum lögum, Ort í sandinn og Ég syng þennan söng. Þessi tvö síðasttöldu seldu plötuna að ég held. Þessi plata skipti mig mestu máli.

Hvenær eru jólin komin? Ætli það sé ekki bara þegar maður fer í messu á aðfangadag. Svo náttúrulega þegar krakkarnir fara að taka upp jólabögglana. Þá eru þau komin!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir