Eiríkur Hauks flýgur til Íslands til að syngja á Laufskálaréttaballi

Rauðhærði rokkarinn Eiríkur Hauksson mun nú um helgina gera hlé á upptökum i Riga þar sem hann dvelur þessa dagana við upptökur ásamt rokkgoðinu Ken Hensley til þess að koma og syngja með hljómsveitinni Von á Sauðárkróki á árlegu Laufskálaréttarballi sem haldið verður í reiðhöllinni Svaðastaðir á laugardagskvöld.

Auk Eiríks munu Magni og Sigga Beinteins þenja raddböndin á þessu stærsta sveitaballi landsins þar sem stemningin er ólýsanleg enda fáir kátari en Skagfirðingar að kvöldi Laufskálaréttar.

-Ég komst í samband við Eirík í gegnum hljóðmann sem var að vinna með honum í gamla daga  og eftir tvö þrjú símtöl var hann klár í slaginn en það var draumur okkar allra í bandinu að fá kallinn til þess að syngja með okkur, segir Siggi Doddi, hljómborðsleikari í Von.

Að sjálfsögðu verður Gaggó Vest rokkað ásamt fleiri ódauðlegum slögurum og lofa Siggi Doddi og félagar miklu stuði.

Húsið opnar klukkan 23:00 en þeir sem vilja tryggja sér miða geta skellt sér á N1 Sauðárkróki, pylsað sig upp og keypt miðann á krónur 3000. Aldurstakmark á dansleikinn er 16 ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir