Eldur í Húnaþingi - föstudagsdagskrá

Unglistahátíðin Eldur í Húnaþingi er bæjarhátíð í Húnaþingi vestra sem haldin verður dagana 23.-27. júlí. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 og er stútfull af skemmtilegri afþreyingu sem enginn ætti að missa af.

Föstudagurinn 25. júlí 2014 - Dagskrá:

FM Eldur – FM 106,5  Útvarpsstöðin FM Eldur verður starfræktur yfir hátíðina á tíðninni FM 106,5. Útvarpsstjóri í ár er Birkir Snær Gunnlaugsson. Þeir sem hafa áhuga á að vera með útvarpsþátt, flytja tónlist í útvarpinu eða taka þátt með einhverjum hætti, er bent á að hafa samband við Birki á utvarphvammstangi1@gmail.com eða í síma 847-9444.

10:00  Götudans Kramhússins, Hvammstanga - Street Dance námskeiðið hjá Natasha frá Kramhúsinu heldur áfram á föstudeginum og kl. 10:00 hefst námskeiðið sem er fyrir krakka á aldrinum 6-12 ára. Skráning fer fram á eldurihun@gmail.com, 20 komast að á hverju námskeiði.

12:30  Götudans Kramhússins, Hvammstanga - Street Dance námskeiðið hjá Natasha frá Kramhúsinu fyrir 13-18 ára aldurinn heldur áfram á föstudeginum og hefst námskeiðið kl. 12:30. Skráning fer fram á eldurihun@gmail.com, 20 komast að á hverju námskeiði.

13:00  Heiðurssýning Agnars Levy, Hús VSP við Brekkugötu 2 - Agnar Levy var einn af bestu hlaupurum Íslendinga á árunum 1960-1969. Hann keppti bæði hérlendis sem erlendis. Sýndir verða munir í einkaeigu, ljósmyndir, blaðagreinar, umfjallanir o.fl. Sýningin fer fram í húsi Sigurðar Pálmasonar á jarðhæð. Agnar sjálfur mun vera af og til á staðnum til að hitta og spjalla við fólk.

Opnunartímar sýningar eru eftirfarandi:

fimmtudagur til sunnudags (24.-27. júlí) kl. 13:00-16:00.

Aðstandendur sýningar eru afkomendur Agnars. Áhugaverð sýning sem allir eru hvattir til að koma og upplifa.

15:00  Brúðubíllinn, Hvammstanga - Brúðubíllinn mætir á Eld í Húnaþingi og er leikrit júlímánaðar um týnda eggið. Þar er Lilli að leika sér í dótatunnunni sinni og hún er sneisafull af alls kyns söngvum, leikritum, sjóræningjum og sögum. Trúðurinn kemur í heimsókn og margir fleiri. Allt fer hins vegar vel að lokum og vonandi finnur Lilli eggið sitt. Brúðubíllinn verður við félagsheimilið á Hvammstanga og hefst sýningin kl. 15:00.

16:00  Heimsmeistaramótið í kleppara, Félagsheimilið á Hvammstanga - Heimsmeistaramótið í kleppara verður sem áður í félagsheimili á Hvammstanga og hefst það kl. 16:00. Hér er allt lagt í sölurnar til að ná að hampa sigri og hljóta þar með titilinn Heimsmeistari í kleppara. Sjón er sögu ríkari. Skráning fer fram á staðnum.

16:00  Paintball og Lasertag, Mjólkurstöðvartúnið, við Hvammstangabraut á Hvammstanga - Hægt verður að skella sér í Paintball og Lasertag meðan á hátíðinni stendur. Vellirnir verða staðsettir á Mjólkurstöðvartúninu. Paintball og lasertag er frábær skemmtun fyrir vinahópa, skólahópa, fyrirtæki, eða gæsa-/steggjapartý.

Aldurstakmark í Paintball er 18 ára en veitt er undanþága frá 15 ára aldri gegn skriflegu leyfi forráðamanns. Verð 4.000 kr. í Paintball og 2.000 kr. í Lasertag. Vellirnir verða opnir á föstudeginum frá 16:00 - 22:00.

17:00  Námskeið í hestafimleikum, Hvammstanga - Boðið verður upp á námskeið í hestafimleikum, en hestafimleikar eiga miklum vinsældum að fagna hér í Húnaþingi vestra. Drög dagskrár hátíðarinnar gera ráð fyrir því að námskeið í hestafimleikum fyrir unglinga og fullorðna verði í kringum kl. 17:00 á föstudeginum.

17:00  Púttmót Flemmings, Hvammstanga - Púttmót Flemmings verður haldið við heilsugæsluna á Hvammstanga og er opið öllum. Spilaðar verða 3x 9 holur, því alls 27. Keppt verður í flokki kvenna og karla. Mótið er öllum opin og ekkert gjald er fyrir þátttöku.

21:00  Tónleikar í Borgarvirki, Borgarvirki í Vesturhópi - Einn helsti atburður hátíðarinnar eru tónleikar í Borgarvirki á föstudagskvöldinu. Borgarvirki er ein af okkar fallegustu náttúruperlum í Húnaþingi Vestra og hafa tónlistarmenn eins og Ragga Gísla, Steini (úr Hjálmum), KK, Egill Ólafsson og Hörður Torfa komið þar fram undir berum himni. Að þessu sinni mun heimakonan Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir ásamt hljómsveit sinni Kókos sjá um að framreiða fagra tóna á þessum kynngimagnaða stað.

Tónleikarnir byrja klukkan 21:00 og viljum við benda fólki á að mæta tímanlega þar sem mikið umferðaröngþveiti getur skapast. Við mælum með því að fólk haldi áfram framhjá Borg að loknum tónleikunum og keyri þá leiðina inn á Hvammstanga. Hægt verður að nýta sér rútuferðir til og frá Borgarvirki sem auglýstar verða síðar.

23:00  Tónleikar með Ljótu hálfvitunum, Félagsheimilið á Hvammstanga - Að loknum tónleikum í Borgarvirki eða um klukkan 23:00 byrja tónleikar með hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir. Hljómsveitin spilar "þjóðlaga-wonk-pop-akústik-pönk-allskonar-eitthvað...". Meðlimir hljómsveitarinnar eru; Aggi, Ármann, Baldur, Bibbi, Eddi, Gums, Oddur, Sævar og Toggi. Unglistarbarinn verður með vígalegar veitingar til sölu.  og kostar litlar 2.000 krónur inn á tónleikana. 18 ára aldurstakmark er á tónleikana.

Fleiri fréttir