Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar

Glæsilegur hópur með viðurkenningarnar. MYND GG
Glæsilegur hópur með viðurkenningarnar. MYND GG

Umhverfisviðurkenningar sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2023 voru afhentar í gær 14. september í Húsi Frítímans. Það er Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar sem hefur umsjón með útnefningu þessara viðurkenninga fyrir sveitarfélagið. Þetta er 19. árið sem Soroptimistaklúbburinn hefur haft umsjón með verkefninu og voru veitt sjö verðlaun í sex flokkum þetta árið. 

Fyrirkomulagið hefur verið með svipuðu sniði öll þessi ár. Klúbbsystur raða sér í sex hópa, sem skipta með sér svæðinu frá Fljótum, inn allan Skagafjörð fram að Hofsvöllum og út að Hrauni á Skaga. Farið er um þéttbýli og sveitir yfir sumarið og að lokum skila hóparnir tillögum um þá staði sem valið stendur um hverju sinni. Sem dæmi um atriði sem horft er til og gefin einkunn fyrir er frágangur bygginga, geymsla tækja og áhalda, viðhald girðinga, almenn umgengni og heildarmynd húsa, lóða og sveitabýla. „Mjög oft fylgjumst við með framvindu hjá einstaklingum og fyrirtækjum í nokkur ár áður en ákveðið er að veita viðkomandi viðurkenningu. Af því að klúbburinn hefur unnið að þessu ánægjulega og þarfa verkefni í mörg ár, þá erum við nokkuð vel að okkur um hvernig hlutunum er komið á mörgum bæjum og á lóðum í þéttbýli. Sem betur fer er stöðugt verið að bæta umgengni í sveitarfélaginu og gera umhverfi okkar snyrtilegra,“ sagði Ingibjörg Sigfúsdóttir, sem sá um afhendinguna fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar. 

Verðlaunin að þessu sinni voru veitt eftirfarandi:

Ytra- Vallholt fékk verðlaun í flokknum myndarlegasta býlið með hefðbundinn búskap en þar er rekið myndarlegt sauðfrjár- og hrossaræktarbú af þeim Birni Grétari Friðrikssyni og Hörpu Hrund Hafsteinsdóttur. Í umsögn segir að snyrtimennska sé áberandi þegar útihús og umhverfi þeirra er skoðað. Sömu sögu er að segja þegar komið er að íbúðarhúsinu. Garðurinn við húsið er ræktanlegur og fallegur, auk þess að vera barna- og fjölskylduvænn útivistargarður, þar sem  fótboltavöllur og kartöflugarður eiga báðir sitt pláss. Rúsínan í pylsuendanum verður þó að teljast sundlaugin, sem nýtir affallsvatn af íbúðarhúsi og er því bæði umhverfis- og heilsuvæn fyrir fjölskylduna.

Steinaborg Merkigarðsvegi 4, hlýtur viðurkenningu fyrir býli án hefðbundis búskapar. Eigendur eru Jónína Friðriksdóttir og Stefán Sigurðsson. Í umsögn segir að lóðin kringum húsin er sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin. Íbúðarhús og gestahús eru til fyrirmyndar. Garðurinn prýddur fjölbreyttum gróðri sem er vel snyrtur og klipptur. Í garðinum er að finna stóran timburpall, skjólgirðingu, hlaðna grjótgrind, matjurtir, fjölær blóm, sumarblóm, tré og runna. Vel er hugsað um alla hluti. Bæði hús og garður einkennast af einstakri snyrtimennsku. Hvergi er að finna illgresi eða óþarfa gróður sem sýnir að mikil alúð hefur verið lögð í umönnun hans.

Lóðirnar voru tvær í þéttbýli sem fengu viðurkenningu að þessu sinni. 

Suðurgata 11B á Sauðárkróki ber heitið Eiríksstaðir og var byggt 1929. Vantar því aðeins 6 ár til að fylla öldina. Eigendur eru Veigar Gylfason og Aðalheiður Drífa Sigurðardóttir. Í umsögn segir meðal annars að garðurinn er ekki stór en öllu sé haganlega fyrir komið hvar sem litið er. Þau hafa m.a. smíðað skjólvegg, með fallegri lýsingu, útbúið aðstöðu með grilli, borði og stólum. Víða um garðinn eru blómapottar af öllum stærðum með fallegum runnum og fjölbreyttum blómum. Mikil alúð og snyrtimennska hefur verið lögð í garðinn og öll umgjörðin er til fyrirmyndar í þessu gamla gróna hverfi.

Háahlíð 3 á Sauðárkróki er í eigu Ingólfs Jóhannssonar og Valdísar Ýrar Ólafsdóttur. Í umsögn segir að húsið sé stórt og glæsilegt, vel málað og garðurinn mjög snyrtilegur hvar sem litið er. Alls staðar finnast skjólgóð svæði til útivistar. Hjónin hugsa fyrir öllu og eru með gott afgirt svæði fyrir hundana nyrst á lóðinni. Það er hægt að segja að allsstaðar séu snyrtimennska og þægindi í hávegum höfð. Ljóst er að Valdís og Ingólfur hafa hugsað fyrir þægindum fyrir menn og dýr hvar sem er á lóðinni.  

Lóð við fyrirtæki er lóðin við Mjólkursamlagið. Í umsögn segir að saga Mjólkursamlags Skagfirðinga spanni 88 ár en 1951 flutti mjólkurvinnslan á núverandi stað við Skagfirðingabrautina (Aðalgötuna). Síðan þá hefur mikið breyst og í takt við framþróun hafa ýmsar viðbyggingar verið byggðar við húsið. Mjólkursamlagshúsið er miðsvæðis í bænum og setur svip á bæjarmyndina með Mjaltakonuna fallegu í forgrunni. Húsið og allt umhverfi þess er snyrtilegt og smekklega hefur verið gengið frá húsnæði og lóð eftir síðustu stækkun, enn fremur tökum við eftir því að vel er gengið frá tækjum og búnaði á vinnusvæði bak við hús. Það var Óli Björn Pétursson sem tók við verðlaununum fyrir hönd Mjólkursamlagsins. 

Oddfellowhúsið fékk viðurkenningu fyrir lóð við opinbera stofnun og eða félagasamtök. Í umsögn segir að fyrsta skólfustungan var tekin 9.okt. 2016. Strax í framhaldi var hafist handa við jarðvegsvinnu. Í mars 2017 var byrjað að slá upp fyrir grunnum að viðbyggingum við húsið, en byggt var við húsið á fjórum mismunandi stöðum. „Við systur höfum fylgst spenntar með framkvæmdunum eins og aðrir bæjarbúar. Lóðin er afar vel skipulögð og umgjörðin öll hin glæsilegasta. Hellulögn og lýsing til fyrirmyndar. Húsið var formlega tekið í notkun 5.nóvember 2022.“

Að lokum er það viðurkenning fyrir einstakt framtak og var það Umhverfisdagur Fisk Seafood sem var valið þetta árið. Verkefninu var komið á fót til að ýta undir samvinnu- og umhverfishugsjón í samfélaginu. FISK Seafood hefur í gegnum árin veitt styrk til íþróttafélaga, árið 2021 var ákveðið í samráði við Knattspyrnudeild Tindastóls að tengja saman þátttöku íþróttafélaga í því að snyrta umhverfi sitt með því að halda umhverfisdag og FISK seafood setti fjármagn á móti í kaup á íþróttabúningum. Fyrsta umhverfidaginn söfnuðust 4.880kg. af rusli og mættu 199 iðkendur ásamt aðstandendum. Þetta sumar fengu yfir 300 einstaklingar nýjan keppnisbúning. 

Árið 2022 stækkaði verkefnið og öllum deildum og aðildarfélögum innan UMSS boðið að taka þátt. Hver einstaklingur sem tók þátt í verkefninu gat ánafnað 10.000 kr. á þá deild innan UMSS sem hann óskaði. Það ár söfnuðust 8.700 kg. af rusli og mættu 522 einstaklingar á öllum aldri og söfnuðu 5,2 milljónum króna fyrir 14 deildir. 

Í ár var umhverfisdagurinn stækkaður enn meira og upphæðin sem hægt var að ánafna 12.000 kr. á deild innan UMSS sem han óskaði. Alls mættu 754 einstaklingar á öllum aldri sem tóku upp 18.400 kg. af rusli og styrktu í leiðinni 15 deildir innan UMSS og nam heildarupphæð styrkja 9 milljónum króna. Öllum þátttakendum er boðið í veitingar að verki loknu. Umhverfisdagur FISK seafood hefur fest sig í sessi sem fjölskyldurdagur þar sem hlúð er að nærumhverfinu og látið gott af sér leiða. Það voru þau Friðbjörn Ásbjörnsson og Stefanía Inga Sigurðardóttir sem tóku við viðurkenningunni fyrir hönd FISK. 

Hrefna Jóhannesdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Skagafjarðar óskaði öllum þeim sem fengu umhverfisviðurkenningar 2023 til hamingju og þakkaði þeim þá hvatningu sem þau væru íbúum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir