Er flug til Sauðárkróks tryggt?
Fjárlög íslenska ríkisins var samþykkt rétt í þessu en þar var m.a. samþykkt að 10 milljónir króna fari í að styðja flug á sérstaka áfangastaði þar sem hætta er talin á að það leggist af án opinbers stuðnings. Fram kom í afgreiðslu tillögunnar að hér sé ekki síst verið að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Sauðárkróks.
Bjarni Jónsson forseti sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar sagðist fagna þessum gríðarlega mikla áfanga en hann hefur lagt mikla vinnu ásamt fleiri Skagfirðingum í að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess að tryggt verði áframhaldandi flug á Sauðárkrók.
Hann vildi þakka ráðherra samgöngumála Ögmundi Jónassyni hans stuðning og skilning á málinu en segir að betur má ef duga skal. Nú þurfi heimamenn og flugfélagið Ernir í samvinnu við stjórnvöld að vinna hörðum höndum að því að ná því sem upp á vantar. Fram hefur komið að að óbreyttu hefði áætlunarflug til Sauðárkróks lagst af um áramótin.