Ógleymanleg martröð sýnd aftur
Það er ekki á hverjum degi sem það er heimsfrumsýning á leikverki í Miðgarði, allavega ekki á verki sem er samið af nemendum í 10. bekk. En það var gert á dögunum þegar nemendur 8.- 10. bekkjar í Varmahlíðarskóla sýndu verkið Ógleymanleg martröð, þar var ekki á ferðinni einhver smásýning, heldur rétt tæplega tveggja tíma sýning sem sýnd var fyrir fullum sal.
Það átti bara að vera þessi eina sýning en krakkarnir ætla að sýna aðra sýningu vegna fjölda fyrirspurna 29. janúar nk. í Miðgarði klukkan 18:00 og er þetta allra síðasti séns til að sjá þessa frábæru sýningu hjá krökkunum.
Ógleymanleg martöð var stórskemmtileg sýning með litríkum karakterum, full af húmor, morðum, ástum og örlögum. Það verður leikið, dansað og sungið af fingrum fram og það heldur áfram að sanna sig hvað við eigum frábæra, flotta og hæfileikaríka krakka.
Það var Íris Olga Lúðvíksdóttir kennari í skólanum sem sá um leikstjórn og henni til aðstoðar var fyrrum nemandi skólans Ísak Agnarsson.
