Eyþór Franzson Wechner kosinn maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu

Eyþór Franzson Wechner tekur við viðurkenningu frá Húnahorninu úr hendi Auðuns Steins Sigurðssonar. Mynd: Húni.is
Eyþór Franzson Wechner tekur við viðurkenningu frá Húnahorninu úr hendi Auðuns Steins Sigurðssonar. Mynd: Húni.is

Eyþór Franzson Wechner, organisti Blönduóskirkju og píanókennari við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu var kosinn maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2017 af lesendum Húnahornsins. Í umfjöllun huna.is segir að Eyþór þyki einstaklega hæfileikaríkur organisti og tónlistarflutningur hans hafi vakið aðdáun allra Húnvetninga sem á hann hafi hlustað. Átti hann stóran þátt í sigurgöngu Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í keppninni um kóra Íslands á síðasta ári.

Eyþór fæddist á Akranesi árið 1990. Hann hóf píanónám sjö ára gamall en skipti 14 ára yfir á orgel. Fyrst lærði hann undir leiðsögn Úlriks Ólasonar en síðar hjá Birni Steinari Sólbergssyni við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Að loknu námi þar hélt Eyþór til náms í Þýskalandi þar sem hann lauk Bachelor of Arts gráðu í orgelleik frá Hochschule für Musik und Theater Leipzig árið 2012 og tveimur árum seinna Masters of Art gráðu frá sama skóla. Eyþór hefur komið fram á einleikstónleikum á Íslandi, Þýskalandi og í Ástralíu. Hann hefur starfað sem organisti við Kristskirkju í Landakoti, Hallgrímskirkju, Fella- og Hólakirkju og hefur starfað sem organisti í Blönduóskirkju síðan í september 2015.

Mjög góð þátttaka var í kosingunni um mann ársins að þessu sinni og fengu fjölmargir tilnefningu. Þátttaka Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í keppninni Kórar Íslands á Stöð 2 í haust var mörgum ofarlega í huga og fengu kórinn, stjórnandi hans, Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson, og og undirleikari kórsins, Eyþór Franzson Wechner flestar tilnefningar. Eyþór bar að lokum sigur úr býtum með flestar tilnefningar.

Sú hefð hefur skapast að tilkynnt er um niðurstöðuna í valinu á Blöndublóti, þorrablóti Blönduósinga. Það var haldið síðastliðið laugardagskvöld og tók Eyþór þar við viðurkenningarskildi og gjöf frá Húnahorninu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir