Fákar og fólk á DVD
Út er komin á DVD kvikmyndin Fákar og fólk. Myndin var frumsýnd í Félagsheimilinu á Blönduósi í sumar en hún var tekin haustið 2008. Sýnir hún hrossasmölun á Laxárdal og stóðréttir í Skrapatungurétt og fjallar um það ævintýri sem þessi viðburður er.
Í myndinni koma fram margir húnvetnskir áhugamenn um hestamennsku og ferðamál ásamt fjölda ferðamanna sem voru þátttakendur í ævintýrinu þetta haustið. Má ætla að á þriðja hundrað manns hafi verið á hestbaki þennan dag. Þarna má sjá stóðhrossin koma úr sumarhögunum á Laxárdalnum frjálsleg í fasi og náttúran skartar sínu fegursta í haustlitunum.
DVD diskur myndarinnar Fákar og fólk er tilvalin jólagjöf handa hestamönnum og þeim sem unna íslenskri náttúru. Myndin kostar 3.900 kr. og er hún til sölu hjá Valgarði Hilmarssyni á Húnabraut 32 Sími 893-2059. Kvikmyndun og tæknivinna Örn Ingi. Önnur myndataka Jón Ingi Einarsson og Alfreð Möller. Tónlistin í myndinni er eftir Húnvetningana Benedikt Blöndal Lárusson, Hauk Ásgeirsson og Skarphéðinn Einarsson.
Útgefandi og framleiðandi er Arnarauga/Örn Ingi á Akureyri.