Fjölbreytt aðventudagskrá í Skagafirði
Það er hvítt og jólalegt um að litast í Skagafirði þessa dagana. Þessa síðustu helgi fyrir jól er margt um að vera í firðinum og enginn ætti að þurfa að sitja auðum höndum. Dagskrá aðventunnar birtist í Sjónhorninu og einnig á heimasíðu Sveitarfélagsins.
Á laugardaginn, 20. desember, verður hægt að höggva sér jólatré í skógi Skógræktarfélaganna í Varmahlíð og að Hólum. Þeir sem ekki vilja höggva sitt tré sjálfir geta keypt jólatré í jólatrjáasölu Knattspyrnudeildar Tindastóls á Eyrinni.
Það verður opið í Gallerí Alþýðulist í Varmahlíð, Blóma- og gjafabúðinni, Tánni og Strata, Litlu jólabúðinni á Hótel Varmahlíð og hjá Maddömunum í Maddömukoti. Auk þess verða kynningar um allan bæ, söngur og gleði í jólaösinni á Sauðárkróki. Karlakórinn Heimir syngur í Skagfirðingabúð kl. 16 og á Dvalarheimili aldraðra kl. 17.
Á sunnudaginn, fjórða sunnudag í aðventu verður hægt að fara í rökkkurgöngu í gamla bæinn í Glaumbæ og fá sér kaffi í Áskaffi. Það verður bröns í KS Varmahlíð og opið í Tánni og Strata og Blóma- og gjafabúðinni. Á sunnudagskvöldið er svo jólablót í Ásheimi að Efra Ási.