Fjölmenni á kynningarfundi um hitaveitu í Fljótum
Um sextíu manns voru á kynningarfundi sem Skagafjarðarveitur héldu í félagsheimilinu Ketilási varðandi fyrirhugaða hitaveitu í Fljótum. Umræða um hitaveitu hefur staðið alllengi í Fljótum og heitar lindir á nokkrum stöðum í sveitinni. Seint á síðasta ári var ráðist í borun eftir heitu vatni í landi Langhúsa en þar var raunar fyrir gömul borhola. Árangur varð góður 6.5 sekúndulítrar fengust af 101 stiga heitu vatni.
Indriði Þór afhendi hér Halldóri á Molastöðum gögn sem húseigendur þurfa að útfylla vilji þeir gerast aðilar að veitunni. Ljósm./ÖÞ
Á fundinum kynnti Bragi Þór hjá verkfræðistofunni Stoð áætlanir um hitaveitulögn sem greinist í þrjár áttir frá borholunni. Sú stærsta og lengsta fer í austur og fram Austur Fljót og endar við Skeiðsfoss.
Næsta liggur í vestur og fram Flókadal og endar við bæinn Neskot, og sú stysta liggur til Haganesvíkur.
Fram kom hjá Braga að óljóst er hvort samningar nást um að taka vatn úr borholu á Lambanes-Reykjum og leiða á svæðið þar í kring og einnig hvort farið verður með lögn frá Skeiðsfossi að væntanlegu hóteli sem verið er að byggja á Deplum í Stíflu.
Í máli Indriða Þórs sviðstjóra hjá Sveitarfélaginu Skagafirði kom fram að kostnaðaráætlun hljóðar uppá 240 millj. króna sem áætlað er að greiðist niður á 20-25 árum. Áætlað er það kosti 2.1 millj. króna (án vsk) fyrir eigendur íbúðarhúsa að tengjast veitunni en 1. millj. og 350 þús. fyrir eigendur frístundahúsa.
Húseigendur þurfa nú að gera uppvið sig fljótlega hvort þeir vilja tengjast hitaveitunni því áformað er að bjóða út efnisþáttinn í byrjun mars og vinnuliðinn síðar í vetur. Gert er ráð fyrir að skipta framkvæmdinni á tvö ár og taka Austur-Fljótin á þessu ári. /ÖÞ