Fjölnota pokar í Kjörbúðinni á Blönduósi

Anna Margrét færði Arnari Þór, sveitarstjóra, og Herði, bæjarstjórnarmanni, sérmerkta poka. Mynd: Húni.is.
Anna Margrét færði Arnari Þór, sveitarstjóra, og Herði, bæjarstjórnarmanni, sérmerkta poka. Mynd: Húni.is.

Viðskiptavinum Kjörbúðarinnar á Blönduósi stendur nú til boða að fá lánaða fjölnota taupoka í stað þess að kaupa plastpoka undir vörur sínar. Það voru nokkrar áhugasamar konur um plastpokalaust samfélag á Blönduósi sem hittust reglulega og saumuðu pokana sem gerðir eru úr gardínum, sængurverum og öðrum efnum sem til falla og upplagt er að endurnýta.

„Við bjuggum til eitthvað úr efnum sem átti að henda, sem er dásamlegt. Við ákváðum strax að hafa þá vandaða og það fer ekkert mikið fyrir þeim þegar þeir eru brotnir saman. Ef hlutir eru vel gerðir, þá er fólk viljugra að nota þá. Auðvitað tekur lengri tíma að sauma þá en það er þessi virði ef fólk er að nota þá,“ segir Anna Margrét Valgeirsdóttir, textílkennari á Blönduósi, í samtali við Fréttablaðið á föstudaginn en það var hún sem hratt þessu þarfa verkefni af stað.Pokarnig eru snyrtilega samanbrotnir. Mynd: Húni.is.

Pokarnir voru teknir í notkun í Kjörbúðinni í lok nóvember. Þá fóru konurnar með 464 poka í búðina og við það tækifæri afhenti Anna Margrét þeim Arnari Þór Sævarssyni, sveitarstjóra, og Herði Ríkharðssyni, sveitarstjórnarmanni, fyrstu pokana sem voru sérmerktir með nöfnum þeirra. Anna Margrét segir í samtali við Húna.is við þetta tækifæri að hún hafi fundið mikinn stuðning og áhuga á verkefninu frá því að hún viðraði hugmyndina á Facebook í lok sumars. Áfram verður saumað í vetur og eru allir velkomnir í félagsskapinn. „En nú er komið að íbúum Blönduóss og nágrennis að halda verkefninu gangandi. Það á að nota pokana. Og það þarf líka að skila þeim til baka til að hringrásin haldi áfram“, segir Anna Margrét í viðtalinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir