Flæðarnar – miðbærinn okkar á Króknum

Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna ekki er meiri metnaður, en raun ber vitni, fyrir því að fegra miðbæinn á Sauðárkróki. „Hvaða miðbæ?“, spyr nú einhver. „Það er enginn miðbær á Króknum“. Ég er ekki sammála því. Í mínum huga er miðbærinn þar sem „Flæðarnar“ eru; túnið norðan við Sundlaug Sauðárkróks þar sem nú eru tjaldstæði. Ef ég mætti ráða þá myndi ég leggja til eftirfarandi:

Fyrsta skref: Tjaldstæðið verði flutt upp á Nafirnar og tengt við Grænuklauf. Til að þetta megi verða að veruleika verður að gróðursetja tré sem mynda skjólbelti eða búa til einskonar mön sem skýla fyrir norðanáttinni. Hjá sveitarfélaginu liggja nokkurra ára gamlar tillögur, hugsanlega frá fleiri en einum aðila, sem mætti draga fram og nýta í þessu sambandi. Tjaldstæðið á nýjum stað yrði tengt við íþróttasvæðið með göngustígum. Ég er sannfærð um að tjaldstæði uppi á Nöfum yrði einstakt í sinni röð með útsýni yfir fjörðinn okkar fagra.

Annað skref:Flæðarnar verði gerðar að lystigarði fyrir íbúa á Sauðárkróki. Tré verði gróðursett og skjólbelti mynduð. Það er hægur vandi að búa til ævintýraveröld á Flæðunum með stígum, gróðri, litlum grasflötum með gosbrunni svo fátt eitt sé nefnt. Garður í miðjum bænum laðar að fólk, bæði heimafólk og gesti. Lystigarðurinn yrði skilgreindur sem miðbær Sauðárkróks, innrammaður af Sundlaug, Safnahúsi og Ráðhúsinu. Það er sterkur leikur að efna til samkeppni á meðal bæjarbúa um það hvernig svona garður eigi að líta út. Til þess að af þessu megi verða, verður að leggja allar hugmyndir um hótelbygginu á Flæðunum til hliðar. Flæðarnar tilheyra íbúum á Króknum og í Skagafirði öllum og eiga að nýtast þeim til framtíðar sem útivistar- og leiksvæði.

Sundlaug Sauðárkróks. Ljósm./KSE

Þriðja skrefið: Það þarf að ákveða framtíð Sundlaugar Sauðárkróks. Þær raddir heyrast sem segja að best sé að jafna sundlaugina við jörðu. Mannvirkið sé hvort sem er ónýtt og nær væri að byggja nýja laug nær Árskóla. Þetta verða fróðir menn og til þess færir, að vega og meta vandlega.  Ef við ætlum hins vegar að nota gömlu sundlaugina áfram þá er ekki lengur hægt að horfa upp á það að laugin grotni niður. Í sturtuaðstöðu kvenna drýpur vatn úr loftinu, sem líklega kemur úr niðurfalli í karlasturtum og það lekur vatn á fleiri stöðum. Það er ekki hægt að bjóða gestum upp á slíkt. Á veturna þegar hálka er og snjór á bökkum laugarinnar eru sundgestir í mikilli hættu þegar þeir ganga til laugar eða í heitu pottana og það hlýtur að teljast heppni að ekki hafa orðið stórslys. Hér eru einungis tvö dæmi nefnd.

Það má sjá tækifæri í þessari gömlu sundlaug sem nú er komin hátt á sextugsaldurinn. Það ætti að vera nægt rými til að sameina karla og kvennaklefa á efri hæð. Koma upp lyftu fyrir þá sem ekki geta gengið upp stigana. Færa gufuna upp á efri hæðina. Færa öryggisverðina nær útvegg sem snýr í vestur þannig að þeir hafi betri yfirsýn yfir laugina. Hugsanlega væri hægt að koma upp rennibraut og vaðlaug sunnan við núverandi laug og setja upp líkamsrækt á neðri hæðinni. Enn og aftur minni ég á fyrri hugmyndir sem hafa komið fram um sundlaugina og mætti ef til vill skoða nánar.

Á þessu ári eru veittar að minnsta kosti 11 milljónir til viðgerða á lauginni og er það vel. Auk þess sem frekari fjármunum er ætlað til laugarinnar, samkvæmt áætlunum sveitarfélagsins fyrir árið 2014. Þessir fjármunir gefa vonandi fyrirheit um að augu sveitarstjórnarmanna séu að opnast.

Allar framkvæmdir í sveitarfélaginu byggjast á því að til séu peningar til framkvæmdanna, en það þarf líka að gera áætlanir og forgangsraða verkefnum. Skipulag Flæðanna þarf að skoða í heild sinni. Flæðarnar ættu að geta haft mikið aðdráttarafl í framtíðinni sem „miðbærinn“ á Króknum, ekki bara fyrir okkur íbúana og börnin okkar, heldur einnig gesti og gangandi sem okkur heimsækja.

Bryndís Þráinsdóttir
Sauðárkróki

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir