FNV mætir til leiks í Gettu betur í kvöld

Lið FNV í Gettu betur. MYND AF VEF FNV
Lið FNV í Gettu betur. MYND AF VEF FNV

Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er komin af stað enn einn veturinn. Þrjár viðureignir fóru fram í gærkvöldi en í kvöld mætir lið Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra til leiks. Fram kemur á heimasíðu skólans að mótherji FNV í fyrstu umferð keppninnar sé Tækniskólinn í Reykjavík og hefst viðureignin kl. 19:40 í kvöld. 

Í frétt á netsíðu FNV var sagt frá því fyrir jól að á meðan flestir nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra væru komnir í langþráð jólafrí var nóg að gera hjá Gettu betur liði skólans og undirbúningur fyrir keppni nýs árs á lokametrunum.

Lið FNV mun hafa æft vel alla önnina og er fullt tilhlökkunar en það eru þau Íris Helga Aradóttir, Ásta Aliya Friðriksdóttir Meldal, Kristey Rut Konráðsdóttir og Óskar Aron Stefánsson sem skipa liðið.

Ekki verður útvarpað frá keppnunum á Rás 2 í fyrri umferð eins og síðustu ár heldur verður beint streymi aðgengilegt á RÚV.is. Útvarpað verður frá seinni umferðinni og síðan eru átta liða úrslitin sýnd í Sjónvarpinu. 29 skólar senda lið til leiks að þessu sinni.

Feykir óskar liði FNV góðs gengis!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir