Fordómar á brennuna

Ragnar Z. AÐSEND MYND
Ragnar Z. AÐSEND MYND

ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Nú hafa allar brennur verið bannaðar þetta árið, svo manni er vandi á höndum,“ segir Ragnar Z. Guðjónsson ritstjóri Húnahornsins með meiru þegar Feykir spyr hann hverju hann vilji henda á brennuna. Raggi er naut, er Blönduósingur en býr í Hafnarfirði og lýsir 2020 sem ári sóttvarna og takmarkana.

„Árið 2020 er svo sannarlega ár sóttvarna og takmarkana af ýmsum togaAllir hafa þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og takast á við nýjar áskoranir á þessu sérkennilega ári. Heilt á litið hefur það gengið ágætlega hjá þjóðinni. Það er svo verk að vinna að takast á við afleiðingar ástandsins. Með bjartsýni, þori og þoli að leiðarljósi tekst það auðvitað.“

Hver er maður ársins? Það var aðdáunarvert að fylgjast með Hildi Guðnadóttur tónskáldi í byrjun árs þegar hún sópaði til sín verðlaunum í tónlistarheiminum. Hildur fær mitt atkvæði sem manneskja ársins á Íslandi. Út í heimi stóð Joe Biden, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, sig vel í að losa okkur við Trump, í bili að minnsta kosti.   

Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Uppgötvun vísindamanna á elsta efni jarðar sem er milljörðum árum eldra en jörðin sjálf, vakti athygli mína í byrjun árs. Efnið eru rykagnir sem gætu verið allt að 7,5 milljarða ára gamlar en eins og allir vita er líklegt að jörðin hafi myndast fyrir um 4,5 milljörðum ára. Rykið fannst í loftsteini sem féll á Ástralíu árið 1969. Merkilegt, ekki satt?

Hvað var lag ársins? Beisk tár er lag ársins, hvað annað. Lagið var samið 1989/90 en gefið út á þessu ári. Hljóðritað í Hvalfirði, þar sem lognið á lögheimili. Það er víst of rokkað fyrir Bylgjuna, en hefur verið spilað á Rás2. Höfundur lags er Svavar H. Viðarsson og texta gerði Hinrik M. Jónsson. Báðir sannir Laugamenn. Lagið er flutt af hljómsveitinni Nostal en í henni er valinn maður í hverju rúmi. 

Hvað var broslegast á árinu? Fyrir utan að hafa brosað breytt yfir útskrift sona minna frá Flensborg á árinu þá brosti ég einnig breytt og innilega yfir frábærum árangri kvennalandsliðsins í fótbolta. 

Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Að hafa ekki getað ferðast meira og notið samvista með ættingjum og vinum. Margar árlegar og góðar hefðir hafa þurft að víkja á árinu vegna ástandsins sem er auðvitað súrt. En tilhlökkunin er strax orðin mikil að vinna þetta allt upp næstu misserin.

Varp ársins? Hinir stórskemmtilegu þættir The Crown sem sýndir eru á Netflix eru varp ársins hjá mér. 

Matur eða snakk ársins? Rjúpan og íslenska lambið standa alltaf upp úr. Bæði ganga frjálst um húnvetnskar grundir og ekki er nú verra ef húnvetnskar hendur hafa hanterað matinn og séð um matseldina.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Ja, ef maður bara gæti. Nú hafa allar brennur verið bannaðar þetta árið, svo manni er vandi á höndum. Annars væri ég til í að kasta öllum fordómum á bálið, bæði mínum og annarra. Það myndi bæta heiminn. 

Hver var helsta lexía ársins? Þolinmæði þrautir vinnur allar. Já, við getum þetta saman, höldu þetta út!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir