Frábær skemmtun á 25 ára afmæli Golfklúbbsins
Golfklúbbur Skagastrandar er 25 ára í nóvember og í tilefni þess var haldið afmælishóf í Kántrýbæ síðasta laugardagskvöld. Klúbburinn var stofnaður þann 27. nóvember 1985 og nefndist í upphafi Golfklúbbur Vindhælishrepps hins forna.
Tveir heiðursfélagar voru útnefndir, Jón Ólafur Ívarsson og Hjördís Sigurðardóttir en bæði hafa verið óþreytandi í golfiðkun sinni og lagt sitt af mörkum fyrir klúbbinn.
Haukur Örn Birgisson, varaforseti Golfsambands Íslands, sæmdi þrjá félagsmenn gullmerki sambandsins fyrir vel unnin störf í þágu golfklúbbsins um árabil. Þau voru Adolf H. Berndsen, Dagný M. Sigmarsdóttir og Ingibergur Guðmundsson en öll hafa þau m.a. verið formenn klúbbsins. Auk þeirra hafa Bjarnhildur Sigurðardóttir og Fríða Hafsteinsdóttir gegnt formannsstöðunni. Einnig afhenti Haukur golfklúbbnum fallegan bikar í tilefni afmælisins.
Afmælishátíðin þótti takast afar vel og þrátt fyrir að veður hafi verið slæmt fyrr um daginn mættu fjölmargir golfarar. Meðal skemmtiatriða var slagverksspil tveggja ungra stúlkna, Sigurbjargar Birtu Berndsen og Guðrúnar Önnu Halldórsdóttur sem léku eins og englar. Hugrún Sif Hallgrímsdóttir og Sigríður Stefánsdóttir sungu tvö lög og Adolf J. Berndsen lék á harmónikku.
Sjá nánar á Skagaströnd.is