Frjálsa kótelettufélagið fagnar fjögurra ára afmæli

Í Austur-Húnavatnssýslu starfar félagsskapurinn Frjálsa kótelettufélagið og mun það fagna fjögurra ára afmæli þann 26. september næstkomandi. Félagið hefur á þessum árum verið mjög öflugt og hefur haldið um 20 kótelettukvöld í Eyvindarstofu á Blönduósi við miklar vinsældir. Húni.is segir frá því að til standi að halda eitt slíkt laugardagskvöldið 29. september klukkan 19:30 og hafa margir skráð sig til þátttöku nú þegar.

Kóteletturnar sem bornar verða fram koma sem áður frá SAH-Afurðum Blönduósi og segir í frétt Húna.is að Björn Þór og félagar hjá B&S muni nota sömu aðferðir og sambærilegt meðlæti og húnvetnskar ömmur notuðu við undirbúning og eldamennsku hér á árum áður. Veislustjóri á kótilettukvöldi verður Vilhjálmur Egilsson, rektor háskólans á Bifröst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandi vestra. Fjöldasöngstjóri verður Þórhallur Barðason.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir