Fullveldisafmælinu fagnað á Prjónagleði

Prjónagjörningur á Prjónagleði 2017. Mynd: tsb.is
Prjónagjörningur á Prjónagleði 2017. Mynd: tsb.is

Fjallað er um Prjónagleðina á Blönduósi í fylgiriti Fréttablaðsins, Fögnum saman, í gær en í því er umfjöllun um þá viðburði sem haldnir verða á Íslandi í tilefni 100 ára fullveldisafmælis þjóðarinnar. Í blaðinu er dagskráin á fyrri hluta ársins kynnt en hátíðarhöldin munu standa yfir í heilt ár. Rætt er við Jóhönnu Erlu Pálmadóttur, framkvæmdastjóra Textílseturs Íslands á Blönduósi í blaðinu.

Prjónagleðin á Blönduósi verður nú haldin í þriðja sinn og þema hennar þetta árið verður 100 ára fullveldi Íslands.  „Fátt er þjóðlegra en að prjóna og því datt okkur í hug að tengja Prjónagleðina í ár við 100 ára fullveldi Íslands,“ segir Jóhanna í samtali við blaðið. „Aðalmarkmiðið með Prjónagleði er að leiða saman áhugafólk, fagfólk og alla þá sem vilja læra meira og deila af reynslu sinni og sögum í sambandi við prjón,“ segir Jóhanna ennfremur.

Fyrirhugað er að halda prjónasamkeppni þar sem prjóna og hanna á peysu með 100 ára fullveldið sem þema. „Allir geta tekið þátt og er um að gera að nota hugmyndaflugið við prjónaskapinn. Vegleg verðlaun verða í boði og peysurnar sem berast í samkeppni verða til sýnis. Prjónasamkeppninni verður hrint af stað um næstu mánaðamót,“ segir Jóhanna sem hvetur þá sem áhuga hafa til að fitja upp sem fyrst. Annað verkefni tengt fullveldisafmælinu er að stefnt er á að nemendur allra grunnskólanna í héraðinu prjóni stykki sem tengist 100 ára fullveldi Íslands þar sem leikið verði með liti og áferð. Afraksturinn verður svo til sýnis á Prjónagleði.

Prjónagleðin verður haldin aðra helgina í júní en laugardagurinn er alþjóðlegur dagur prjónafólks. Sem fyrr verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá með námskeiðum og fyrirlestrum sem tengjast prjóni að einhverju leyti. Þá verður prjónavara til sýnis og sölu. Prjónagleðin er alþjóðleg prjónahátíð og er hún í samstarfi við aðrar prjónahátíðir í Fanø í Danmörku og Orkanger í Noregi. Jóhanna segir að í sumar fái hátíðin kennara í heimsókn frá Hjaltlandseyjum og Danmörku og spennandi verði að sjá hvað þeir verði með á prjónunum. Boðið verði upp á námskeið á ensku fyrir erlenda gesti þar sem margir hafi áhuga á íslensku prjóni.

Framundan er spennandi verkefni hjá Textílsetrinu í samvinnu við Þekkingarsetrið á Blönduósi, Strikkefestival á Fanø í Danmörku og Orkanger í Noregi. Verkefnið fékk veglegan styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. „Hann á að nota til að rannsaka hvort hægt sé að hanna flytjanlegt textílhótel. Það yrði flutt á milli prjónahátíða til að uppfylla þörf fyrir gistipláss. Þrír arkitektar frá arkitektastofunni Nörrön, sem er margverðlaunuð stofa, hafa verið ráðnir til verksins og þeir hafa þegar hafist handa. Þeir sjá m.a. í alvörunni fyrir sér að hótelið verði byggt úr prjónuðum veggjum,“ segir Jóhanna í fylgiriti Fréttablaðsins í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir