Fylgst með ferðum áa

Á meðfylgjandi myndum má sjá dreifingu ánna 29. ágúst sl.
Á meðfylgjandi myndum má sjá dreifingu ánna 29. ágúst sl.

Í sumar fór fyrirtækið Tannak í Svíþjóð af stað með smá tilraunaverkefni með staðsetningarbúnað á kindum frá bænum Sölvabakka í Blönduósbæ. Tilgangur tilraunarinnar er að fylgjast með ferðum ánna og voru settar hálsólar með staðsetningarbúnaði á 100 ær.

Ólarnar eru með sólarrafhlöðum og senda þær frá sér útvarpsmerki einu sinni á klukkustund sem gefur til kynna staðsetningu þeirra. Sett voru upp fjögur möstur til að nema merkin. Höfuðmastrið, sem staðsett er á Hvammshlíðarfjalli, sendir síðan upplýsingar gegnum gsm-símkerfið inn í gagnagrunn sem ábúendur á Sölvabakka hafa aðgang að á netinu.

Hægt er að sjá hvar ærnar voru síðast þegar merki var sent og einnig er hægt að skoða hvar þær hafa gengið undanfarnar vikur. Samskonar búnaður er talsvert notaður á hreindýr í norðanverðri Svíþjóð, Noregi og eflaust í Finnlandi líka til að fylgjast með ferðum þeirra. Það var Tannak sem útvegaði hálsólar og möstur til verkefnisins en Björgunarfélagið Blanda tók að sér uppsetningu mastranna.

Fleiri fréttir