Fyrsta æfing Borces í gærkvöldi

Borce Ilievski, yfirþjálfari Tindastóls, kom til Sauðárkróks í gær eftir sumarfrí og endurmenntun í heimalandi sínu Makedóníu og Serbíu. Þrír erlendir leikmenn væntanlegir.

Æfingar hófust af kappi í gærkvöldi og verður æft tvisvar á dag, flesta daga vikunnar. Auk hefðbundinna körfuboltaæfinga verða  útihlaup á morgnana kl. 6 líkt og í fyrra og  mættu átta galvaskir liðsmenn í morgun og samkvæmt upplýsingum úr herbúðum Tindastóls er andinn góður og mikill hugur í mönnum fyrir komandi vertíð.

Nýjir erlendir leikmenn eru væntanlegir í liðið en verið er að ganga frá samningum um þessar mundir en það munu vera bandarískur leikstjórnandi, bakvörður frá Makedóníu og serbneskur miðherji. Ljóst er að Sigmar, Sveinbjörn og Axel verða ekki með í vetur og óvíst er hvað Svavar gerir en samkvæmt heimildum Feykis er þrýst þéttingsfast á hann að halda áfram.

Aðalfundur körfuknattleiksdeildarinnar verður haldinn innan tíðar en nú þegar hafa þrír einstaklingar samþykkt að taka sæti í stjórn og eru þegar farnir að starfa. Þau eru Geir Eyjólfsson, Hólmfríður Sveinsdóttir og Gunnlaugur Sighvatsson.

Fleiri fréttir