Gáfu fullkomið hjartastuðtæki ásamt aukabúnaði

Í gær afhenti Oddfellowstúkan Sif á Sauðárkróki Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki LifePak 15 hjartastuðtæki frá Pysio Control. Hér er um fullkomið hjartastuðtæki að ræða með möguleika á hraðari greiningu og meðferð sjúklinga. Að sögn Herdísar Klausen yfirhjúkrunarfræðings, gefur tækið einnig möguleika til meiri inngripa en áður var hægt, betra er að fylgjast með skyndilega veikum einstaklingum og auðveldara er að fylgjast með árangri hjartahnoðs í endurlífgun.
Sömu tæki eru nú þegar notuð í öllum sjúkrabílum sem eykur samræmi í meðferð og öryggi sjúklinga. Tækið er búið tólf leiðslu hjartalínuriti, mælingum á súrefnismettun, hita, blóðþrýstingi, gangráðskerfi o.fl. Með 3G sendibúnaðnum er hægt að senda hjartalínurit og niðurstöður lífsmarkamælinga til sérfræðinga á Landspítala og Sauðárkróki. Andvirði tækisins er kr. 1.790.000 án vsk.
Minningarsjóður Sigurlaugar Gunnarsdóttur frá Ási afhenti við sama tækifæri aukabúnað sem samanstendur af 3G sendibúnaði, mansettum í öllum stærðum og hleðslutæki. Andvirði aukabúnaðarins er kr. 295.986 án vsk.
Tækið ásamt öllum aukabúnaði verður staðsett á sjúkradeild HSN á Sauðárkróki.