Gagnrýna drög að frumvarpi um sameiningu sýslumannsembætta

Fram kemur á vef SSNV að í Samráðsgátt stjórnvalda er til umsagnar mál nr. 122/2022, Drög að frumvarpi til laga um sýslumann með umsagnarfresti til 31. júlí 2022.
á 76. fundi stjórnar SSNV, sem haldin var 5. apríl 2022, var brugðist við bréfi frá dómsmálaráðherra vegna fyrirhugaðrar endurskipulagningar sýslumannsembætta. Þar kemur fram að stjórn SSNV hafi áhyggjur af því að sýslumannsembættin verði sameinuð í eitt og gagnrýnir að ekki hafi verið haft samráð við sveitarfélögin í undirbúningi þeirrar endurskipulagningar. Í bréfi dómsmálaráðherra er vísað er í hraða stafræna þróun og að núverandi skipulag skipulag henti illa af þeim sökum.
Bendir stjórn SSNV á að stafræn þróun sýslumannsembættanna hafi staðið yfir um nokkurt skeið og að núverandi skipulag ekki verið til trafala í þeim efnum og að erfitt sé að sjá hvernig úrlausn viðkvæmra mála verði leyst með rafrænum hætti, þar sem sérstaklega eru nefnd svo sem fjölskyldu- og fullnustumál.
Í bréfi dómsmálaráðherra kemur fram að breytingarnar séu gerðar með það að markmiði að efla núverandi starfsemi og styrkja starfsstöðvar sem þjónusta almenning um allt land en ekki er tiltekið með á hvað hátt það yrði gert.
Gangrýnir stjórn SSNV að í texta frumvarps sem lagt hefur verið fram í þessum efnum eru engar tryggingar fyrir því að starfstöðvar verði efldar eða að nauðsynlegar valdaheimildi sýslumanna verði til staðar. Jafnframt telur stjórn SSNV að lýsingar lýsingar á embættum landsbyggðarinnar séu miðaðar við lágmarks þjónustu og að ekkert komi fram um þróun þeirra embætta eða eflingu.

Fram kemur í umsögn byggðarráðs Skagafjarðar um málið:

„Byggðarráð geldur hins vegar varhug við að embættum sýslumanna verði fækkað en sporin hræða í þeim efnum að þegar stjórnsýslueiningar missa ákveðið sjálfstæði hefur slíkt oftar en ekki leitt til þess að umfang starfsstöðva þeirra hefur minnkað í kjölfarið eða þeim verið lokað með tilheyrandi skerðingu á nærþjónustu. Nægir þar að nefna starfsemi svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni, starfsemi Vegagerðarinnar, Rarik o.fl. Byggðarráð leggur því áherslu á að frumvarp þetta verði ekki lögfest án þess að samhliða verði fest í lög þau verkefni og umsvif sem starfsstöðvum sýslumanns er ætlað að sinna.“

Stjórn SSNV tekur undir áhyggjur byggðarráðs Skagafjarðar og þá áherslu á að verkefni og umsvif embættanna verði fest í lög að örðum kosti sé hætt við verulegri rýrnun embættanna á landsbyggðinni. Jafnframt er mikilvægt að þær valdheimildir sem sýslumenn hafa í dag verði áfram til staðar heima í héraði til að taka megi brýnar ákvarðanir hratt og örugglega en miðað við texta frumvarpsdraganna er hætta á að svo verði ekki.
Bendir Stjórn SSNV einnig á að engar rekstrartölur eða áætlanir til langs tíma liggi fyrir eins og krafa er gerð um skv. lögum. Mun þar af leiðandi ekki vera hægt að bjóða starfsmönnum störf nema til skamms tíma miðað við fjárheimildir til ársins 2024. Þetta skapar mikla óvissu og hættu á að starfsmenn leiti á önnur mið og við það myndist það fráfall sérfræðikunnáttu, sem að sjálfsögðu hefur áhrif á þjónustu og samfélögin þar sem embættin eru staðsett í dag ásamt auknum kostnaði.

leggur stjórn SSNV áherslu á að frumvarpið nái ekki fram að ganga nema gerðar verði á því eftirfarandi breytingar:

  • Skýrt verði í frumvarpinu hvernig efla á embættin á landsbyggðinni eins og fyrirheit hafa verið gefin um.
  • Núverandi valdsviði sýslumannsembættanna heima í héraði verði viðhaldið í lagatextanum svo bregðast megi við brýnum málum hratt og örugglega.
  • Verkefni embættanna verði skýr í lagatextanum.
  • Gerðar verði langtíma fjárhags- og rekstraráætlanir fyrir embættin svo ráða megi starfsfólk í breytt embætti til langs tíma til að koma í veg fyrir spekileka og óþarfa rót á starfseminni.

Stjórn SSNV tekur fram að ef framangreindar breytingar verði gerðar og frumvarpið nái fram að ganga, vill stjórn samtakanna leggja áherslu á það sem fram kom í fundargerð 77. fundar þann 10. maí 2022, þar sem þess er óskað að aðalskrifstofa nýs sýslumanns fyrir landið allt verði staðsett á Norðurlandi vestra. Ríkið samþykkti nýverið að kaupa viðbótarhúsnæði í því húsi sem hýsir núverandi skrifstofu sýslumannsins á Norðurlandi vestra á Blönduósi. Nægt rými er þar til að hýsa nýtt embætti nái frumvarpið, með fyrrgreindum breytingum, fram að ganga.
Gerir stjórn SSNV athugasemd við tímasetningu frumvarpsins, að setja fram frumvarp þegar flestir eru í sumarfríi með einungis tveggja vikna frest til athugasemda verður að teljast varhugavert þar sem þetta sé mikilvægt mál er varðar stjórnsýslu og störf heima í héraði.

/IÖF



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir