Geta stór tré vaxið á landsbyggðinni?

Í tveimur litlum þorpum í Danmörku, Nordborg og Bjærringbro, eru höfuðstöðvar tveggja stærstu fyrirtækja á sínu sviði í heiminum.  Þetta eru fyrirtækin Danfoss og Grundfos. Þessi þorp hafa í raun ekkert fram að færa umfram önnur þorp í Danmörku, ef horft er til tækifæra eða auðlinda. Þessi fyrirtæki eru þarna vegna þess að stofnendum þeirra var annt um sitt litla þorp og vildu með velgengni sinni gefa þeim eitthvað til baka af þeim auði.

Ef þessi fyrirtæki væru ekki þarna væru þetta hálfgerðir draugabæir sem hefðu lítið aðdráttarafl.  Með þessu háttarlagi sínu, þessari ættjarðarást og virðingu fyrir því uppeldissamfélagi sem gerði þessa menn að frumkvöðlum á sínu sviði, hafa þeir skapað þúsundir starfa á stöðum sem varla nokkur myndi taka eftir eða detta í hug að væru til á landakortinu.

Segið svo að það sé ekki hægt að rækta stór fyrirtæki á landsbyggðinni og allar höfuðstöðvar þurfi ekki að vera innan 10 km radíus frá miðborg höfuðborgarinnar. Í andhverfu við þetta getum við tekið tvo litla bæi á Íslandi t.d. Ísafjörð og Neskaupsstað.  Þessi bæir hafa allt fram yfir þessi litlu þorp í Danmörku ef litið er til nálægðar við náttúruauðlindir og innri byggingu samfélagsins, en samt eru þarna engar höfuðstöðvar alþjóðlegra fyrirtækja.

En þarna komum við að kjarna málsins. Þessir dönsku frumkvöðlar höfðu trú á því samfélagi sem þeir bjuggu við. Þeir trúðu því að lítið samfélag gæti dafnað og vaxið með fyrirtækjum sínum. Þeir börðust fyrir því að stjórnvöld sköpuðu það rekstrarlega umhverfi sem jafnaði aðstöðu fyrirtækja, óháð staðsetningu. Það er ekkert auðveldar í dag, en að reka höfuðstöðvar stórfyrirtækja, í smáþorpi á Íslandi. Það er jafn langt frá Ísafirði til Reykjavíkur eins og frá Reykjavík til Ísafjarðar, þó sumum finnist það vera lengra að fara til Ísafjarðar en að fara til Reykjavíkur.

Fólk flytur af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar, því það telur hag sínum betur borgið þar.  Til að koma í veg fyrir samfélagslegt hrun landsbyggðarinnar verða stjórnvöld að skapa aðstæður sem efla trú manna á eigin byggðarlagi en ekki draga úr þeirri von. Ekkert sveitarfélag er svo smátt að það geti ekki vaxið með aukinni velsæld. Ef landsbyggðarfólk hefur ekki aðgang að þeim auðlindum sem þar eru eða fær að njóta arðsins af þeim, þá mun byggð leggjast smátt og smátt af.

Hægri Grænir er ekki sérhagsmunaflokkur. Hægri Grænir er flokkur allra íslenskra borgara, flokkur heildar hagsmuna og vill skapa nýtt og betra samfélag. Þess vegna höfum við lagt mikla vinnu í að gera faglega stefnuskrá sem tekur á helstu meinsemdum samfélagsins.  Við teljum að með okkar skíru afstöðu t.d. til hagsmuna heimilanna, ESB, gjaldeyrishafta, krónunnar o.fl. séum við með skíran valkost á móti misvísandi stefnu annarra flokka, sem eru tvístígandi í mörgum helstu málefnum sem þarf að leysa til að koma landinu upp úr stöðnunarfasa yfir í velgengni.  Kynntu þér okkar valkost á www.xg.is

Sigurjón Haraldsson, viðskiptafræðingur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir