Góð staða Tindastóls eftir sigur á Selfossi

Tindastóll gerði góða ferð á Selfoss í dag þar sem liðið lék við Árborg sem hefur farið mikinn í 3. deildinni í sumar. Þetta var fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum 3. deildarinnar og fer síðari leikurinn fram á Sauðárkróksvelli næstkomandi miðvikudag kl. 17:15. Og úrslitin? Jú, 3-0 fyrir Tindastól.

Að sögn Sigga Donna, þjálfara Stólanna, var hann mjög ánægður með liðsheildina í dag sem skóp sigurinn. Liðið lék skipulagðan og agaðan leik, menn voru samstíga í varnarleiknum og sóttu hratt á heimamenn þegar færi gafst eins og lagt var upp með. Lið Árborgar á sterkan heimavöll en leikið er á gervigrasi sem þykir nú ekki alltaf góðs viti fyrir gestaliðin.

Árni Ödda skoraði fyrsta mark leiksins með góðum skalla eftir sendingu frá Pálma Valgeirs en Árni hafði reyndar rotast fyrr í leiknum en lét það ekki aftra sér. Staðan 1-0 í hálfleik. Arnar Sigurðs kom Stólunum síðan í 2-0 eftir laglegt einstaklingsframtak og það var síðan Kiddi Aron sem innsiglaði sigurinn með sínu þriðja marki í þremur leikjum. Ekki slæmt að detta í stuð í úrslitakeppninni. Lokatölur 3-0.

Sem fyrr segir er seinni leikur liðanna á Sauðárkróksvelli nú á miðvikudaginn og rétt að benda stuðningsmönnum  Stólanna á leiktímann - korter yfir 5. Stólarnir eru nú í góðum séns með að endurheimta sætið í 2. deild en þjálfarinn er með það á hreinu að það er aðeins fyrri hálfleikur búinn í einvíginu og sætið í 2. deildinni ekki gulltryggt enn. Það er því ekki úr vegi að stuðningsmenn Tindastóls fjölmenni á völlinn og styðji strákana til góðra verka. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir