Góði dátinn Svejk og Ráðskonan á Grund á náttborðinu

Sigríður er fastagestur á Bókasafni Húnaþings vestra.
Sigríður er fastagestur á Bókasafni Húnaþings vestra.

Sigriður Tryggvadóttir, eftirlaunakona á Hvammstanga, svaraði spurningum Bók-haldsins í 37. tbl. 2017. Sigríður er uppalin á Hrappsstöðum í Víðidal en á unglingsárunum gekk hún í skóla í Njarðvíkum. Hún var bóndi á Efri-Fitjum í um 30 ár, ásamt eiginmanni sínum til 50 ára, en flutti til Hvammstanga fyrir 17 árum en þar var hún bóka- og skjalavörður Húnaþings vestra í 15 ár.

Ríkidæmi Siggu er að hennar sögn börnin tvö og tengdabörn, barnabörnin sex og langömmubörnin tvö. Í sumar spurði sjö ára langömmustrákur Siggu hana hvort hún hafi alltaf kunnað að lesa. „Svarið var nei,“ segir hún, „en ég var lítil þegar ég lærði það og ég var það sem kallað er, alæta á bækur, en það hefur breyst með árunum. Aðspurð segir Sigga að foreldrar hennar hafi örugglega lesið eins mikið og þeir höfðu tíma til og hún segir að á bernskuheimilinu hafi verið til talsvert af bókum auk þess sem bækur hafi oft verið fengnar að láni hjá Lestrarfélaginu. 

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?           

„Sem barn man ég eftir bókinni Stóra Inga og Litla Inga og bókunum um Þóru í Hvammi (Ég á gull að gjalda,og fleiri) eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Þær voru mjög mikill drami. Fyrsta stóra bókin sem ég man eftir að hafa reynt að lesa var Piltur og stúlka en skildi víst lítið og spurði pabba eitthvað út í þetta og hann tók bókina sagði að ég læsi þetta þegar ég yrði stærri.“ 

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?

„Nokkrar bækur eru til í skápnum sem eru í uppáhaldi, t.d. Fátækt fólk og Ævisaga Hafsteins Sigurbjarnarsonar. Þessar bækur segja manni svo mikið um liðna tíð, líf sem maður blessunarlega þekkir ekki og gerir sér enga grein fyrir. Alltaf þegar ég fer um Öxnadalinn hugsa ég til Tryggva Emilssonar og þessa lífs sem var lifað þarna.“ 

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna?

„Ég á enga uppáhaldshöfunda en les alltaf bækurnar hennar Kristínar Steinsdóttur og Kristínar Marju.“ 

Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?

„Í sumar hef ég verið að tína út úr hillunum bækur sem ég hef ekki lesið í mörg ár og lesa aftur. Svo er alveg nauðsynlegt að láta liggja á náttborðinu bækurnar Góði dátinn Svejk og Ráðskonan á Grund það er alltaf hægt að kíkja Í þær sér til gleði.“ 

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?

„Ég fer ég á bókasafnið á Hvammstanga og fæ bækur.“ 

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið og áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?

„Hér áður fyrr fór ég mikið í fornbókabúðir en þar sem allt of mikið er til af bókum  á heimilinu (mörg hundruð) er bæði bannað að kaupa og gefa bækur (þetta bann er nú brotið eftir þörfum).“ 

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?

„Ef ég þyrfti að velja eina bók til að gefa væri það annaðhvort Fátækt fólk eða Málverk á striga.“ 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir