Góði hirðirinn :: Leiðari Feykis

Fjallræðan. Mynd af FB-síðunni Biblían.
Fjallræðan. Mynd af FB-síðunni Biblían.

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð,“ sagði Jesú forðum og hægt er að lesa í Jóhannesarguðspjalli.

Framundan er páskahátíðin sem í flestum kristnum kirkjudeildum er mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Tilefnið er upprisa Jesú en kristnir menn trúa því að hann hafi risið upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu 27 til 33 e.Kr. eftir því sem kemur fram á WikiPedia. Samkvæmt frásögum í Nýja testamentinu bar handtöku og krossfestingu Jesú upp á páskahátíð gyðinga og páskalambið varð að tákni fyrir Jesú í hugum kristinna manna því honum var fórnað á sama hátt og lambinu.

Í Nýja testamentinu er mönnum oft á tíðum líkt við sauði, í jákvæðri merkingu auðvitað, lömb sem þurfa verndara, fjárhirði. Vondu kallarnir eru úlfar eða höggormar og við þá þarf að eiga. Lífið hefur líklega alltaf verið bölvað bras og ætíð þurft að hafa fyrir því. Þá er gott að hafa einhvern sem leiðir mann hinn mjóa veg dyggðarinnar.

„Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig, eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum.“

Mér varð hugsað til þess er ég sá fréttina um fækkun í Þjóðkirkjunni, sem finna má annars staðar á síðunni, hver ástæðan gæti verið þar sem tilgangur Kristninnar er svo göfugur. Ég hallast helst að því að við höfum það svo gott að við teljum að við þurfum ekki á guðdómnum að halda. Við leitum frekar til hans þegar eitthvað bjátar á eða alvarlegar þrengingar verða í lífi okkar. Þess vegna er gott að hafa í huga að þakka fyrir þegar vel gengur og beina bænum okkar til almættisins til hjálpar þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda. Mér er sagt að bænir virka og trúi því.

Gleðilega hátíð!
Páll Friðriksson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir