Góður rekstur Steinullar
Rekstur Steinullar hf. Á Sauðárkróki hefur gengið nokkuð vel, segir Einar Einarsson framkvæmdastjóri en síðustu 4 árin frá hruni hefur að meðaltali verið um 80 milljón króna hagnaður á ári. Eiginfjár hlutfall í lok síðasta árs var tæp 60 % og veltufjárhlutfall u.þ.b. 3.
Einar segir að reksturinn hafi gengið nokkuð vel frá hruni og reyndar verið hagnaður síðustu 20 árin en verksmiðjan hóf framleiðslu í lok árs 1985.
-Salan núna hér innanlands er svipuð og hún var á árunum upp úr 1990 og er því aðeins 40 % af því, sem mest var árið 2007. Útflutningur okkar er nokkuð stöðugur og hefur skipt sköpum um afkomu fyrirtækisins eftir hrun og við prísum okkur sæla fyrir að halda í þessa markaði enda þótt framlegðin af útflutningnum hafi engin verið meðan mesta hágengisbrjálæðið gekk yfir, segir Einar.
Helstu útflutningsmarkaðir steinullar eru Færeyjar, Bretland og Benelux löndin en Einar segir að flutningskostnaður geri þeim erfitt fyrir og þurfi því að einbeita sér að framleiðslu sérafurða á þessa markaði.
-Við gerum ráð fyrir óverulegri aukningu á innanlandsmarkaði í ár en að útflutningur aukist lítilsháttar og að áfram verði reksturinn réttu megin við strikið.