Göngum saman í fyrsta sinn í Skagafirði

Félagið Göngum saman hefur staðið fyrir styrktargöngum í Reykjavík undanfarin ár en er nú farið að teygja anga sína út á landsbyggðina. Í ár taka Skagfirðingar í fyrsta sinn þátt og verður boðið upp á fallegar leiðir á Hólum í Hjaltadal og nágrenni. Fólk getur valið um að ganga 3 km og 7 km. Styrktargangan fer fram sunnudaginn 5. september og hefst kl. 11.

Styrktarfélagið Göngum saman var stofnað  fyrir þremur árum. Þá ákvað hópur kvenna, sem flestar áttu það sameiginlegt að tengjast Gunnhildi Óskarsdóttur núverandi formanni félagsins, að taka þátt í Avon göngunni í New York. Til að taka þátt í þeirri göngu þurfti hver kona að safna 1.800 dollurum til styrktar rannsóknum á krabbameini í brjóstum. Göngum saman hópurinn ákvað í kjölfarið að stofna félag sem hefði það að markmiði að styrkja innlendar grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.

Málefnið kemur okkur öllum við. Karlar og konur munu ganga! Allir eru hvattir til þátttöku. Þó verkefnið hafi alvarlegan undirtón er gangan skemmtileg og því fleiri sem mæta því betra. Fullorðið göngufólk er beðið að greiða 3.000 kr í styrktarsjóð Göngum saman. Frítt er fyrir börn. Nánar má lesa um verkefnið á gongumsaman.is.

Aðstandendur göngunnar í Skagafirði eru bjartsýnir á góða þátttöku og einmuna veðurblíðu! Göngugarpar fá frítt í sundlaugina á Hólum að göngu lokinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir