Grunnskólinn að Hólum fékk bronsið
Lokahóf Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda fór fram s.l. sunnudag hjá aðal bakhjarli NKG, Marel í Garðabæ. Innsendar hugmyndir í ár voru 1600 talsins. 45 hugmyndasmiðir voru valdir úr þessum stóra hópi, þ.á.m. tveir nemendur frá Grunnskólanum austan Vatna að Hólum, þær Guðbjört Angela Mánadóttir og Margrét Helga Sigurbjargardóttir.
Ungu uppfinningamennirnir unnu verk sín af nákvæmni og vandvirkni í vinnusmiðjunni í ár eins og endranær. Var verulega fróðlegt að sjá allar hugmyndirnar sem útfærðar voru í vinnusmiðjunni og sýndar á lokahófinu. Oft var mjótt á munum milli keppnisflokka og aðeins nokkur stig sem greindu á milli þess að hljóta verðlaun eður ei.
Keppnisflokkarnir voru sjö talsins í ár; Almennur flokkur, atvinnuvegir, hugbúnaður, hönnun, slysavarnir, leikföng og orka og umhverfi. Verðlaunahafar eru 25 talsins með 20 hugmyndir. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson verndari keppninnar, afhenti verðlaun og flutti hátíðarávarp. Mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, afhenti viðurkenningarskjöl til þátttakenda og grunnskóla.
Þrír skólar hrepptu viðurkenningar fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í NKG og fyrir störf sín á sviði nýsköpunarmenntar.
- Hofsstaðaskóli hlaut Gullverðlaun og farandbikar
- Brúarásskóli hlaut Silfurverðlaun
- Grunnskólinn að Hólum hlaut Bronsverðlaun.
Það er verulegt ánægjuefni að sjá hve nýsköpun eflist með hverju árinu sem líður og mun vonandi verða framhald á því. Allar merkar uppfinningar veraldarsögunnar hafa kviknað í kolli einhvers. Til þess að þær fái að þróast og koma að gagni verður að koma þeim á framfæri. Það er einmitt eitt af aðalmarkmiðunum með nýsköpunarkennslu.
/Björg Baldursdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.