Guðbjartur Hannesson alþingismaður vill áfram leiða lista
Hann var kjörinn á Alþingi árið 2007, starfaði sem formaður félags- og tryggingamálanefndar, í menntamálanefnd og fjárlaganefnd og nú síðast sem forseti Alþingis.
Guðbjartur er fæddur 1950. Hann er með kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands, tómstundakennarapróf frá Danmörku og meistarapróf, ”Fjármál og menntun”, frá Lundúnarháskóla.
Guðbjartur starfaði sem skólastjóri Grundaskóla á Akranesi í 25 ár, sem kennari 5 ár, Erindreki Bandalags ísl. skáta 2 ár, Bæjarfulltrúi á Akranesi 12 ár, sat í bankaráði Landsbanka Íslands 5 ár og eitt ár í Heritable-Banka í London auk stjórnarsetu í fjölda nefnda- og ráða s.s. í útgerðar- og orkufyrirtækjum, svæðisráði fatlaðra, skipulagsnefnd, Stjórn samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og nú síðast sem alþingismaður.
Guðbjartur er giftur Sigrúnu Ásmundsdóttur iðjuþjálfa og eiga þau tvær dætur: Birnu Guðbjartsdóttur lækni og Hönnu Maríu Guðbjartsdóttur háskólanema.
Nýtt og betra samfélag
Almannahagur – samábyrgð – jöfnuður – lýðræði - réttlæti
• Ég vil nýta áfram reynslu mína af fyrri störfum og af mínum fyrstu árum á Alþingi í þágu almennings í kjördæminu og landinu öllu. Baráttan snýst um nýtt og betra samfélag, almannahag, samábyrgð, jafnrétti og aukin áhrif almennings, lýðræði og réttlæti. Samfylkingin hefur frá stofnun staðið fyrir þessi grunngildi.
• Styrkja þarf velferðarkerfið, tryggja öfluga menntun og gott heilbrigðiskerfi, þar sem aðgengi er óháð efnahag og búsetu.
• Endurreisa þarf fjármála- og atvinnulífið með nýjum reglum og bættu siðferði, tryggja í stjórnarskrá að auðlindir verði ávallt í þjóðareigu og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.
• Tryggja þarf fjölskyldum, einstaklingum og fyrirtækjum efnahagslegan stöðugleika, afnema verðtryggingu og lækka vexti með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru. Þetta verði þó aðeins gert ef ásættanlegir samningar nást um aðild og ekki hvað síst um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Aðild að Evrópusambandinu verði á valdi þjóðarinnar að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
• Ég vil leggja áherslu á jafnræði og jafnrétti á milli ólíkra hópa í samfélaginu og á milli landsvæða.
• Efla þarf atvinnulíf á landsbyggðinni. Styrkja þarf sveitarfélög til að taka við nýju verkefnum s.s. málefnum fatlaðra, heilsugæslu og málefnum aldraðra. Auka þarf enn frekar tækifæri til framhaldsmenntunar í héraði, styrkja háskólanám og efla sí- og endurmenntun á svæðinu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.