Gul veðurviðvörun og hvassviðri fram eftir degi

Spá Veðurstofunnar fyrir kl. 11 í dag. SKJÁSKOT
Spá Veðurstofunnar fyrir kl. 11 í dag. SKJÁSKOT

Það er gul veðurviðvörun í kortunum og er jafnvel nú þegar skollin á hér á Norðurlandi vestra. Lægð gengur nú yfir landið og má reikna með norðaustan og austan 15-23 m/s og vindhviðum staðbundið yfir 35 m/s, hvassast í vindstrengjum við fjöll. Varasamt ferðaveður segir Veðurstofan. Ekki er búist við að vindur gangi almennt niður á svæðinu fyrr en undir kvöld.

Vegir eru flestir greiðfærir á Norðurlandi vestra en skafrenningur er þó á Öxnadalsheiði og þar er unnið að mokstri.

Áfram er spáð hlýju vetrarveðri, hita yfir frostmarki, fram á laugardag en þá kólnar aðeins. Engar öfgar eru í spánni fram yfir helgi en þó gæti kastað éljum á sunnudaginn og mögulega herðir á vindi sumsstaðar. Nú er að sjálfsögðu sá árstími að það borgar sig að gá til veðurs; bæði með því að skyggnast til himins og kanna síður Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Fleiri fréttir