Handmjaltir heyra brátt sögunni til
Um næstu áramót verður mjólkursölu frá Ytri-Mælifellsá í Efribyggð í Skagafirði hætt. Er það sögulegt fyrir þær sakir að um er að ræða síðasta kúabú landsins þar sem handmjaltir eru stundaðar. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Jón Arnljótsson, sem rekur búið að Ytri-Mælifellsá ásamt móður sinni Margréti.
Matvælastofnun hefur árlega heimsótt búið og tekið út aðstöðuna en að þessu sinni hafi það verið sett sem skilyrði fyrir áframhaldandi mjólkursölu að verulegar lagfæringar yrðu gerðar á aðstöðunni. Jón tekur þó fram að allt sé þetta gert í góðri sátt við Matvælastofnun og eitthvað sem þau mæðgin hafa lengi vitað að lægi fyrir.
Jón reiknar með að heimiliskýr verði áfram haldnar meðan verið sé að trappa bústofninn niður, en í dag eru sex mjólkandi kýr í fjósinu og tekur það þau mæðgin um klukkutíma að handmjólka sex kýr hvort.